Brynjar Níelsson hefur ákveðið að þiggja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins standi það honum enn til boða. Fyrr í mánuðinum hafði hann tilkynnt að hann myndi kveðja stjórnmálin eftir að hafa endað í 5. sæti prófkjörs Sjálfstæðisflokksins en hann hafði sóst eftir 2. sæti.  Þetta kemur fram í færslu á Facebooksíðu Brynjars.

Sjá einnig: „Ég kveð því stjórnmálin sáttur“

„Niðurstaðan var vonbrigði fyrir mig enda talsvert frá markmiðum mínum. Þessi ákvörðun féll í grýttan jarðveg hjá mörgum flokksmönnum og var lagt nokkuð hart að mér að endurskoða þessa ákvörðun. Ég féllst á að íhuga það. Mér var bent á af sérfræðingum í eðli prófkjara og Kremlarlógíu flokksins að niðurstaða prófkjörsins hafi verið í raun góð fyrir mig. Að lokum náðist að sannfæra mig um að ég hafi verið sigurvegari prófkjörsins, eiginlega stórsigur,“ segir Brynjar Níelsson í færslunni.

Brynjar sóttist upphaflega eftir öðru sæti flokksins en hann endaði í fimmta sæti. Guðlaugur Þór Þórðarson var efstur í prófkjörinu, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir lenti í öðru sæti, Dilja Mist Einarsdóttir í því þriðja og Hildur Sverrisdóttir endaði í fjórða sæti. Þetta er því viðsnúningur frá því fyrr í mánuðinum þegar að Brynjar sagði að  „Úrslitin eru talsverð vonbrigði fyrir mig en skilaboðin eru skýr,“ og að hann myndi kveðja stjórnmálin sáttur.