*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 6. apríl 2021 11:28

Brynjar hnýtir í Svein Andra

Brynjar Níelsson hnýtir í Svein Andra Sveinsson í kjölfar úrskurðar héraðsdóms um ólögmæti vistunnar í farsóttarhúsi.

Ritstjórn
Brynjar Níelsson og Sveinn Andri Sveinsson.
Gunnhildur Lind Photography

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerir úrskurð héraðsdóms um að ekki hafi verið heimild í lögum fyrir því að vista einstaklinga sem komu til landsins frá áhættusvæðum í farsóttarhúsi að umræðuefni í stöðuuppfærslu á Facebook. Gantast Brynjar með að hann sé rúmliggjandi af sársauka eftir að hafa farið í sína fyrstu skimun í morgun.

„Ég ætla ekki að núa þeim um nasir, og allra síst stjörnulögmanninum með ákveðnum greini, vegna niðurstöðu héraðsdóms um svokallað sóttvarnahús. Við vitum ekki hvernig það mál endar á æðri dómstigum. En ég er enn að klóra mér í hausnum yfir þeim sem telja slíkt fangelsi vera lúxushótel og ætla að berjast fyrir því að Alþingi breyti lögunum svo við getum áfram lokað inni ósmitað fólk í slíku húsi sem er með heimili hér á landi. Ég vissi ekki að meðalhófsreglan og stjórnarskráin væri bara upp á grín,“ segir í færslu Brynjars.

Þarna hnýtir Brynjar í lögmanninn Svein Andra Sveinsson, sem hefur farið mikinn í umræðunni um umrætt sóttvarnarhús. Sagði hann m.a. í stöðuuppfærslu á Facebook að ef einhver myndi biðja hann um að sækja mál fyrir sig „út af dvöl í þessu lúxus-sóttkvíarhóteli, mun ég segja viðkomandi að hætta að væla.“

„Sóttvarnir heillar þjóðar og almannaheill eru mikilvægari en það hvort fólk taki út sóttkví heima hjá sér eða á lúxushóteli. Lagagrundvöllurinn er aukaatriði,“ sagði Sveinn Andri einnig í færslunni.

Sjá einnig: Reglugerðin sprengdi sóttvarnarlögin

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, lét hafa eftir sér í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun að honum findist mikil vonbrigði „fyrir íslenska þjóð að fá þennan dóm.“