*

laugardagur, 30. maí 2020
Fólk 23. september 2019 11:41

Brynjar í nýrri stöðu hjá Póstinum

Forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts tekur við nýrri stöðu sem forstöðumaður fyrir þjónustuupplifun viðskiptavina.

Ritstjórn
Brynjar Smári Rúnarsson hefur verið forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts en tekur nú við ábyrgð á þjónustuupplifun viðskiptavina.

Brynjar Smári Rúnarsson hefur verið ráðinn í  starf forstöðumanns Þjónustuupplifunar hjá Íslandspósti. Brynjar hefur undanfarin sex ár starfað sem forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins og þar áður sem markaðssérfræðingur hjá fyrirtækinu. Hann er með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðavið-skiptum frá Háskóla Íslands.

Um er að ræða nýja stöðu innan fyrirtækisins en eitt helsta markmið Póstsins er nú að bæta þjónustu við viðskiptavini. Í starfinu mun hann nálgast öll verkefni út frá sjónarmiði viðskiptavina og tryggja að rödd þeirra heyrist inn í fyrirtækið við allar ákvarðanir.
Hin nýja deild mun heyra beint undir forstjóra og Brynjar kemur inn í teymi lykilstjórnenda Póstsins.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu nýja hlutverki, það að bæta þjónustuupplifun viðskiptavina er stærsta verkefnið sem fyrirtækið stendur frammi fyrir, því ef að viðskiptavinirnir eru sáttir þá blómstrar reksturinn líka,“ segir Brynjar Smári Rúnarsson.

„Það er því mjög mikilvægt að þarfir og óskir viðskiptavina fái meira vægi hjá okkur, ég er þess fullviss að þetta sé stórt skref í þá átt og að ég geti hjálpað til við að bæta þjónustuna okkar.“

Ánægja viðskiptavina póstsins minnkað síðustu ár

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts segir það hafa verið ljóst frá fyrsta degi í vegferð Íslandspósts til umbreytingar fyrirtækisins að tvær stærstu áskoranir póstsins væru að snúa erfiðum rekstri við og að stórbæta þjónustu við viðskiptavini.

„Við sjáum fram á umtalsverða hagræðingu í rekstrinum með lækkun launakostnaðar, kostnaðaraðhaldi og öðrum aðgerðum og við teljum að þau mál sem snúa að rekstri  félagsins séu komin í farveg sem muni skila árangri.  Þá er næsta stóra verkefnið að bæta upplifun viðskiptavina og alla þjónustuna okkar.“ segir Birgir.

„Á síðustu árum hefur ánægja viðskiptavina Póstsins minnkað en það má að miklu leyti rekja það til aukinnar netverslunnar og þeirrar þjónustu sem Pósturinn veitir í tengslum við móttöku sendinga og dreifingu þeirra. Pósturinn hefur ekki verið nógu kvikur í að þróa sig að þörfum nútíma markaðar og hlusta á þarfir viðskiptavina.

Þessari þróun ætlum við að snúa við en með þessari skipulagsbreytingu ætlum við að tryggja að rödd viðskiptavina okkar heyrist í öllu því sem við gerum í framtíðinni. Við vitum að við eigum mikið inni og við ætlum okkur að standa okkur miklu betur enda hafa allir starfsmenn Póstsins metnað og getu til þess að veita framúrskarandi þjónustu.“