*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Fólk 21. maí 2021 11:22

Brynjar leiðir nýtt svið hjá Wise

Brynjar Kristjánsson hefur verið ráðinn hópstjóri Veflausna hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Wise. Tvö í viðbót ráðin inn til félagsins.

Ritstjórn
Brynjar Kristjánsson, Diljá Þorkelsdóttir og Óskar Guðjón Karlsson.
Aðsend mynd

Brynjar Kristjánsson hefur verið ráðinn hópstjóri Veflausna hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Wise. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að Veflausnir séu nýtt svið hjá Wise og muni koma til með að mæta aukinni eftirspurn viðskiptavina í þeirri stafrænu umbreytingu sem fyrirtæki eru að fóta sig í.  

Meðfram ráðningu Brynjars í uppbyggingu á þessu nýja sviði hafa þau Óskar Guðjón Karlsson og Diljá Þorkelsdóttir verið ráðin til starfa.

„Þar sem þörf fyrir sjálfsafgreiðslu neytenda og framsetningu upplýsinga á stafrænu formi hefur aukist, munu sérfræðingar Wise greina og útfæra lausnir út frá þörfum viðskiptavina, allt frá frumgreiningu yfir í fullunnar stafrænar lausnir,“ segir í tilkynningunni. 

Brynjar Kristjánsson sem starfað hefur undanfarin tvö ár sem ráðgjafi í stafrænum lausnum stýrði áður sviði rafrænna þjónustulausna hjá Origo um 10 ára skeið. Brynjar er með BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Óskar Guðjón Karlsson hefur langa reynslu af forritun og innleiðingu á stafrænum lausnum fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir.  Óskar er tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og starfaði áður sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá  Origo.

Diljá Þorkelsdóttir er hugbúnaðarsérfræðingur með mikla reynslu og sérhæfingu í framendaforritun.  Diljá starfaði áður á sviði veflausna hjá Advania. Diljá er með BS-gráðu í tölvunarfræði og BA-gráðu í japönsku máli og menningu frá Háskóla Íslands.

„Það er ánægjulegt að sjá þann árangur sem fyrirtæki og stofnanir eru að ná með innleiðingu stafrænna lausna.  Það er löngu ljóst að gæði þjónustu aukast mikið við stafræna sjálfsafgreiðslu og sjálfvirka ferla.  Möguleikar til hagræðingar í rekstri aukast jafnframt mikið hjá þeim aðilum sem ná góðum árangri í uppsetningu, innleiðingu og almennri notkun á stafrænum lausnum."  er haft eftir Brynjari í tilkynningunni.

Stikkorð: Wise