Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar, sem afhent eru af Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS), verða veitt síðdegis í dag við hátíðlega athöfn í Valhöll. Að þessu sinni hefur stjórn SUS ákveðið að veita Brynjari Níelssyni, hæstaréttarlögmanni, og  InDefence hópnum verðlaunin.

Verðlaunin eru venju samkvæmt veitt einstaklingi og samtökum sem hafa látið gott af sér leiða á opinberum vettvangi, óháð stjórnmálaskoðunum eða þátttöku.

Í tilkynningu frá ungum sjálfstæðismönnum kemur fram að InDefence séu þau samtök sem eigi hvað mestan heiður eiga skilið fyrir að hindra að gengið yrði að ólögmætum og ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga gegn þjóðinni í Icesave málinu.

„Ef ekki hefði verið fyrir InDefence, hefði andstaðan við málið líklega ekki náð þeim skriðþunga sem þurfti til að brjóta á bak aftur áform stjórnvalda um að ganga að kröfunum,“ segir í tilkynningunni.

„InDefence hópurinn er afar gott dæmi um hóp einstaklinga með ólíkar skoðanir til stjórnmála sem sameina krafta sína í þjóðfélagslega  mikilvægu máli og náð árangri.“

Þá segir að Brynjar Níelsson hafi verið ötull baráttumaður gegn pólitískum rétttrúnaði og að hann hafi staðið vörð um grunngildi réttarríkisins í opinberri umræðu.

„Þá hefur hann sýnt mikið hugrekki í baráttu gagnvart  fólki, sem stjórnmálastéttin þorir ekki að andmæla af ótta við óvinsældir,“ segir í tilkynningu SUS.

Venjan er sú að verðlaunin séu afhent einum einstaklingi og lögaðla ár hver. Fyrri verðlaunahafar eru Margrét Pála Ólafsdóttir, Andri Snær Magnason, Vefþjóðviljinn, Davíð Scheving Thorsteinsson, Hugmyndaráðuneytið og Viðskiptaráð.

„Frelsisverðlaunin SUS eru kennd við Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, vegna ötullar baráttu hans fyrir frelsi einstaklingsins þá áratugi sem hann  starfaði í þágu Sjálfstæðisflokksins,“ segir að lokum í tilkynningunni.