Ráðning Evu Joly, sem fengin hefur verið til að aðstoða sérstakan saksóknara við rannsókn á bankahruninu, snýst ekkert um lögfræði. Slíkt ráðslag skýtur skökku við því ákærusmíð og saksókn sem hefur hingað til haft með lögfræði að gera.

Þetta segir Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður í pistli á Pressan.is í dag.

Brynjar segir að hann hafi í fyrradag lýst þeirri skoðun sinni að það væri bruðl og óþarfi að ráða Evu Joly fyrir 80 miljónir króna á ári sem ráðgjafa við rannsóknir sérstaks saksóknara. Hann hafi í kjölfarið búist við mikilli gagnrýni frá Agli Helgasyni „eins og gjarnan þegar einhver vogar sér að gagnrýna ráðningu Evu eða framgöngu hennar í fjölmiðlum,“ eins og Brynjar orðar það.

Það hafi hins vegar ekki gerst en tveir af reyndustu fjölmiðlamönnum þessa lands, Jónas Kristjánsson og Jóhann Hauksson, hafi bent sér á að hann skildi ekki ástæðuna fyrir ráðningu Evu Joly.

„Í pistli sínum á vefsíðu DV segir Jóhann að koma Evu í tengslum við bankahrunið snúist ekkert um lögfræði heldur um traust og trúverðugleika. Jónas tekur undir með Jóhanni og segir ástæðu ráðningar Evu þá, að hún njóti trausts. Sama verði ekki sagt um okkur kerfiskarlana og lagatæknana,“ segir Brynjar.

„Ég er fullkomlega sammála Jóhanni að ráðning Evu snýst ekkert um lögfræði. Slíkt ráðslag skýtur að vísu skökku við því ákærusmíð og saksókn hefur hingað til haft með lögfræði að gera, að minnsta kosti síðast þegar ég vissi til. Sé svo, að ráðning Evu hafi ekkert með lögfræði að gera, verður ekki dregin önnur ályktun en að hún sé pólitískt trix eða sjónarspil til að skapa  yfirbragði rannsóknarinnar eitthvern trúverðugleika.“

Sjá pistil Brynjar í heild sinni hér.