*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 19. september 2017 11:27

Brynjar Níelsson vék sæti

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra situr nú fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþings en Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar og Svandís Svavarsdóttir eru nú í forystu nefndarinnar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem verið hefur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, vék sæti við upphaf opins fundar í nefndinni í morgun þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra situr nú fyrir svörum.

Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar og fyrrum varaformaður nefndarinnar hefur tekið við sem formaður og Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG er nú varaformaður að því er RÚV greinir frá.

Engin tilraun til þöggunar

Á fundinum sem nú stendur yfir hefur Sigríður sagt að alls engin tilraun hafi verið gerð til þöggunar á máli uppreisnar æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar en faðir forsætisráðherra er einn þeirra sem skrifuðu undir meðmæli hans um uppreisn æru.

Það er afskaplega ómaklegt að halda því fram að sérfræðingar ráðuneytisins, sem hafa það eitt að halda trúnað, að ætla að saka þá um þöggun eða mig,“ segir Sigríður sem frábiður sér allar ásakanir um leyndarhyggju og þöggun, en segir að alltaf sé hægt að bæta úr skorti á upplýsingum.

„Þegar ég heyrði af því að faðir forsætisráðherra, ekki forsætisráðherra sjálfur heldur faðir hans, þá gerði ég þá kröfu að fjallað yrði um mál hans með sambærilegum hætti“

Þarf að skoða kjörgengi sakamanna ef reglum breytt

Sigríður segir að hún hafi í embættisfærslum sínum skrifað undir nokkrar náðanir en það sé ekki hefð fyrir því í ríkisstjórn að ræða sérstaklega mál þeirra sem þar séu undir. Eitt af því sem Sigríður bendir á að þurfi að skoða ef reglum um uppreisn æru verði breytt eða ákvæði um það felld niður hvort dæmdir menn hefðu kjörgengi til Alþingis.

 „Þetta er að mörgu leyti siðferðisleg spurning,“ segir Sigríður sem segir þessi mál hafa orðið undir í stjórnkerfinu þó hún ítreki að það hefði verið þungbært fyrir marga fyrirrennara hennar að sinna þeim.

„Þessi mál hafa bara ekki fengið nægt rými í öllu þessu stjórnsýsluati sem öll ráðuneyti fást við. Skýringin á því af hverju menn fóru ekki í þetta fyrr er bara að þau voru ekki nógu mörg og fyrirferðarmikil.“

Vill meina sakamönnum að starfa sem lögmenn

Sigríður segir að ráðuneytið hafi sent tillögur um breytingar á lögum um uppreisn æru til allra hlutaðeiganda og óskað eftir umsögnum en engin viðbrögð hafi borist, þrátt fyrir alls konar sjónarmið séu uppi, þar með talið innan lögmannafélagsins.

 „Mín sýn er algjörlega þau að fella beri þessi lög um uppreist æru gildi en um leið að þess verði krafist að menn sem vildu verða lögmenn mættu ekki hafa fengið þyngri dóm en eins árs fangelsi.“

Sigríður hefur sjálf ekki afgreitt neina umsóknir um uppreisn æru, en ein slík hafi legið á borði hennar nú í nokkurn tíma, en hún hafi verið afturkölluð í morgun.