*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 25. mars 2016 12:33

Brynjar: Óþægilegt fyrir ríkisstjórnina

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að mjög skiptar skoðanir séu um Wintris-málið innan þingflokksins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að mál félags eiginkonu forsætisráðherra sé óþægilegt fyrir ríkisstjórnina. Hann segir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þurfi að funda um málið og fá allar staðreyndir á borð. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Brynjar segir að mjög skiptar skoðanir séu um málið innan þingflokksins, en hann hafi ekki sjálfur mótað sér efnislega afstöðu til málsins. Ólíklegt sé að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tjái sig efnislega um málið fyrr en það hafi verið rætt á fundi.

Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Bjarnason, hafði áður sagt að málið rýri traust milli stjórnarflokkanna. Þingmenn Framsóknarflokksins, svo sem Frosti Sigurjónsson og Þorsteinn Sæmundsson, hafa hins vegar varið forsætisráðherra.

Þorsteinn sagði í grein í síðustu viku að „ófrægingarmenn“ hafi fengið „hjárænulegan Sjálfstæðisþingmann sem er í vandræðum með sjálfsmynd sína“ til liðs við sig. Þar virtist hann vera að vísa til Vilhjálms.