Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að mikils tvískinnungs gæti hjá Pírötum þegar komi að borgaralegum réttindum. Þetta segir hann í stöðuuppfærslu á Facebook .

Brynjar segist þar eiga ágætis samleið með Pírötum þegar komi að ákveðnum borgararéttindum, eins og friðhelgi einkalífs. Hins vegar hafi hann orðið var við tvískinnung í málflutningi flokksins.

„Eignarréttur og eignarréttindi, sem eru sennilega mikilvægust réttindi manna auk þess að vera afar mikilvæg fyrir velferð og framþróun samfélagsins, er beinlínis þyrnir í augum Pírata,“ segir Brynjar.

Hann segist reka minni til þess að þingmaður Pírata hafi látið hafa eftir sér að einkaeignarétturinn væri mein í íslensku samfélagi. Þá hafi flokkurinn barist hatramlega gegn hvers konar verndun eignarréttinda þegar komi að hugverkum.

„Þessi afstaða til eignarréttinda er ástæða þess að ég tel Pírata í grunninn venjulegan vinstri flokk, sem hafa í sögulegu samhengi sjaldnast verið áhugasamir um borgaraleg réttindi manna nema þegar kemur að borgaralegri óhlýðni,“ segir Brynjar að lokum.