Reykjavíkurborg hefur ráðið Brynjar Stefánsson í stöðu skrifstofustjóra yfir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Brynjar er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og M.Sc. gráðu í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Árósum.

Brynjar starfaði sem forstöðumaður sölu- og viðskiptaþróunar hjá Orku náttúrunnar auk þess sem hann sat í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Hann var jafnframt sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2006-2013. Áður starfaði Brynjar sem forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Maritech.

Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar fer með málefni eignasjóðs Reykjavíkurborgar jafnframt því að vinna að verkefnum á sviði atvinnuþróunar og uppbyggingar atvinnu- og íbúðarhúsnæðis í borginni. Eignasjóður Reykjavíkurborgar er einn stærsti fasteignasjóður landsins með yfir 300 fasteignir.

Sjóðurinn fer með rekstur og viðhald eigna borgarinnar og sér um kaup og sölu á löndum, lóðum, fasteignum, samgöngumannvirkjum og lausabúnaði, sem heyrir undir A-hluta í rekstri Reykjavíkurborgar. Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar leiðir einnig vinnu við fjárfestingaáætlun borgarinnar í samvinnu við fjármálaskrifstofu.