Brynjar Níelsson segir að nýtt frumvarp Karls Garðarsonar muni ekki koma í veg fyrir kennitöluflakk vegna þess að það ræðst ekki að rót vandans.

Frumvarp Karls setur þær kvaðir á stofnendur og stjórnendur hlutafélaga og einkahlutafélaga að þeir megi eki hafa verið í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem hafi orðið gjaldþrota á síðustu þremur árum.

Brynjar segir í samtali við Viðskiptablaðið að frumvarp Karls muni ekki hafa tilætluð áhrif.

„Ég óttast að með svona ströngum hindrunum þá séu menn ekki tilbúnir til að fara í áhættusöm viðskipti,“ segir Brynjar. „Mikilvægt er að einhverjir taki áhættu í fjárfestingum og ekkert óeðlilegt að sumir fái skell tvisvar áður en vel fer að ganga enda sumt af okkar farsælasta bísnessfólki þurft þess.

„Ég er ekki viss um að þetta sé rétt nálgun til að leysa vandann. Það má segja að þetta ráðist ekki á rót vandans. Það færir hann til, menn byrja að hafa aðra í forsvari. Þessir menn mun alltaf vera til, þeir munu bara fá einhverja aðra til að vera í forsvari eftir að hafa farið tvisvar á hausinn. Ég vil bara taka á þessu. Það er ekkert erfitt að komast að því hverjir eru að þessu. Menn kaupa vörur eða gera eitthvað án þess að eiga nokkur tímann möguleika á að greiða fyrir það.“

Spurður hvernig hann vilji koma í veg fyrir kennitöluflakk segir Brynjar að aðilar eigi í auknu mæli að kanna hverjir séu að kaupa vörur og þjónustu og t.d. fá tryggingar fyrir viðskiptum. „Kennitöluflakk er ekki þetta rosalega raunverulega tjón, ekki fyrir ríkissjóð. Þetta er oftast þannig að mest af þessum skuldum er áætlun frá skattinum. Þannig finna menn tjónið, sem er ekkert tjón því að það er enginn gróði af rekstrinum. Þetta er fyrst og fremst tjón fyrir þá sem sofa á verðinu og eiga blindandi viðskipti við hvern sem er.“

Auknar sakamálarannsóknir

Brynjar segir að auknar sakamálarannsóknir geti einnig laga þetta vandamál.

„Nú er komið heilt embætti sem hefur ekkert annað að gera. Um leið og menn byrja að taka á þessu þá verða menn hræddari og þora ekki að standa í þessu. Ég vil frekar koma í veg fyrir þetta þannig heldur en að menn sem séu í áhætturekstri séu bara úr leik.“