*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 3. júlí 2018 13:37

Brynjar segir fjölmiðla „í ruslflokki”

Brynjar Níelsson segir íslenska fjölmiðlamenn stunda meiri pólitík en stjórnmálamenn og vandar þeim ekki kveðjurnar.

Ritstjórn
Brynjar Níelsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins og samfélagsrýnir.
Haraldur Guðjónsson

Brynjar Níelsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, segir í færslu sem hann birti á facebook í hádeginu að fjölmiðlar á Íslandi trúi margir að þeir séu „hlutlaus upplýsingaveita” en stundi í raun meiri pólitík en stjórnmálamenn, sem segi þó ekki mikið þar sem „flestir stjórnmálamenn [séu] hættir í pólitík og [hafi] eiginlega breyst í teknókrata.”

Hann segir fjölmiðla þó mikilvæga í frjálsum lýðræðisríkjum, en að sjálfur telji hann þá „veikasta hlekkinn í íslensku samfélagi” og segir þá „eiginlega í ruslflokki eins og þeir segja hjá matsfyrirtækjunum”.

Viðbrögðin láta ekki á sér standa, ýmsir gera athugasemdir við málflutning Brynjars, og Karl Garðarsson fyrrverandi þingmaður fyrir framsóknarflokkinn, sem var í ríkisstjórn með Brynjari 2013 – 2016, og er í dag framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, segir: „Það hlaut að koma að því að maður færi í ruslflokk..”.