Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur það hvorki siðferðilega né pólitíska skyldu sína að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Þetta segir Brynjar á fésbókarsíðu sinni.

Atkvæðagreiðslan fór fram fyrir ári síðan. Tölvupóstar streyma til þingmanna þar sem þeir eru spurðir hvort þeir telji að þeim beri að virða niðurstöðurnar sem fela í sér töluverðar breytingar á þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi.

„Stjórnlagaráð var skipað af pólitískum meirihluta Alþingis og tillögur þess báru keim af því. Þjóðaratkvæðagreiðslan var ráðgefandi og því ekki skuldbindandi fyrir mig, hvorki af siðferðilegum né pólitískum ástæðum. Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar var ábótavant og þátttaka svo dræm að niðurstaðan telst vart marktæk. Svo er ég þeirrar skoðunar að samfélagssáttmála verði að gera í sæmilegri sátt,“ segir Brynjar.

Brynjar segir að aðalástæðan sé þó sú að tillögur stjórnlagaráðs séu í heild sinni vondar og til skaða fyrir íslenskt samfélag. „Þótt einhverjar hugmyndir stjórnlagaráðs séu þess virði að skoða betur voru tillögur ráðsins svo illa fram settar að þær eru ekki nothæfar með góðu móti. Um það eru stjórnlagafræðingar á einu máli,“ segir Brynjar.

Að endingu bendir Brynjar á að það væri til góðs að fara eftir þeirri stjórnarskrá sem í gildi er áður farið er að semja nýja með enn óljósari ákvæðum.