*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Innlent 6. ágúst 2015 13:43

Brynjar: Stjórnlyndis­sinnar sem kalla sig mannréttindasamtök

Kommúnisminn var eitt mesta mannréttindamál síns tíma og er kannski enn hjá sumum, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ritstjórn
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

„Skrítið hvað mikið er til af hópum stjórnlyndissinna sem kalla sig mannréttindasamtök. Mér sýnist helstu baráttumál þessara samtaka nú um stundir vera gegn atvinnu- og tjáningarfrelsi,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í stöðuuppfærslu á Facebook.

Brynjar tilgreinir ekki sérstaklega hvaða samtök hann á við, en færslan er skrifuð í beinu framhaldi af annarri færslu sem hann birti 4. ágúst síðastliðinn. Þá gerði hann refsingu fyrir kynlífsviðskipti að umtalsefni, sem Amnesty International lagði nýlega til að yrðu gerð refsilaus:

„Loks þegar Amnesty ætlar að taka til umræðu hvort rétt væri að að hætta að refsa fyrir kynlífsviðskipti fullráða einstaklinga rjúka upp til handa og fóta ýmiskonar félagsskapur, sem ýmist kenna sig við mannréttindi eða kvenréttindi, og mótmæla hástöfum. Þetta er sama fólkið sem berst gegn þöggun og er upptekið að því að karlar og konur eiga að ráða yfir líkama sínum,“ sagði Brynjar þá og spurði: „Skilur þetta einhver?“

Nú segir Brynjar hins vegar að þetta sé svo sem ekkert nýtt, þ.e. að stjórnlyndissinnar kalli sig mannréttindasamtök, og kveðst hann ekki muna betur en að kommúnisminn hafi verið mesta mannréttindamál síns tíma. Það sé hann kannski enn hjá sumum.

Stikkorð: Brynjar Níelsson