„Nú hafa sex þingmenn stjórnarandstöðunnar lagt fram frumvarp til að auðvelda kjósendum að raða frambjóðendum í kosningum til Alþingis. Tilgangurinn er að efla beint lýðræði. Gott og gilt sjónarmið.“

Þetta skrifar Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í stöðuuppfærslu á Facebook . Þar segir hann aftur á móti að þrátt fyrir þetta frumvarp minnist hann ekki áhuga þessara þingmanna á að efla beint lýðræði í eigin flokkum. Þá sjaldan sem lýðræðislegar kosningar hafi verið haldnar til að raða frambjóðendum hafi niðurstaðan verið hundsuð og fabrikeraðir einhvers konar fléttulistar.

„Svanur Kristjánsson, prófessor og Pírati, sagði á RUV, að prófkjörin hefðu eyðilagt Sjálfstæðisflokkinn. Ég sem hélt að beint lýðræði væri helsta baráttumál Pírata. Kannski er beina lýðræðið aðeins nýtilegt þegar líkleg niðurstaða hentar þeim ágæta flokki,“ skrifar Brynjar.

Hann segir að skýringin á því gæti verið að Píratar hefðu ekki beitt sér fyrir beinu lýðræði þegar kæmi að staðsetningu flugvallarins í Reykjavík. „Gott er að taka til í eigin garði áður en kvartað er yfir rusli í garði nágrannans,“ segir Brynjar að lokum.