Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að tillögur um skuldaniðurfellingar sem forystumenn ríkisstjórnarinnar kynntu í gær séu betri en hann þorði að vona. Í pistli á Pressunni fullyrðir hann þó ekki að hann muni styðja tillögurnar.

„Nú sýnist mér svo að stjórnarflokkarnir hafi náð að miðla málum þannig að hægt verði að lækka verulega verðtryggðar húsnæðisskuldir án verulegra útgjalda fyrir ríkissjóð og áhættu fyrir efnahag þjóðarinnar. Það hefur ekki verið auðvelt og talsvert gengið á. Að það skuli hafa tekist ber að fagna,“ segir Brynjar í pistlinum.

Hann bendir á að áherslur stjórnarflokkanna hafi verið mismunandi í kosningabaráttunni. Nú sé farin leið beggja og ekki verði annað séð en að með þeirri blöndum þynnist mjög út óskostir sem hvorri þeirra fylgdu. „Fyrirhugaðar aðgerðir eru mjög viðamiklar en kostnaðarminni en margir hafa haldið fram. Og miklu betri en flestir þorðu að vona og er ég þar með talinn,“ segir Brynjar.

Hann bætir við að ríkisstjórninni hafi tekist á sex mánuðum að koma með vel útfærðar og raunhæfar tillögur til að bæta tjón þeirra sem skulduðu verðtryggð húsnæðislán á árunum 2007-10. Þessar tillögur eigi að framkvæma án verulegs tjóns eða áhættu fyrir ríkissjóð og sá greiði sem kannski mestu sökina ber. Þar vísar Brynjar í kröfuhafa gömlu bankanna. „Ef þessar tillögur ríkisstjórnarinnar verða ekki að mati fróðustu manna til þess að gengi krónunnar fellur með tilheyrandi verðbólguskoti og staða ríkissjóðs versnar ekki til muna og setur hann á endanum í ruslflokk mun ég styðja þær,“ segir hann.

Hann bætir við að hann geri samt þær kröfur að þeir fjármunir, sem hugsanlega kunni að koma til ríkisins með einum eða öðrum hætti við lok slitameðferðar og lausn sjóhengjunnar, fari til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs að langmestu leyti í stað útgjaldaaukningar. „Nú þarf aga og festu við stjórn ríkisfjármála því mörg erfið úrlausnarefni eru framundan,“ segir Brynjar.