„Mér skilst að ég sé með Pútinmeðvirkni og jafnvel orðinn Rússasleikja. Það er nú bara þannig með mig að ég er ekki hrifinn af viðskiptaþvingunum enda þær aldrei leitt til góðs, heldur þvert á móti. Gera lítið annað en að efla þjóðerniskennd þeirra sem fyrir verða og auka ógnina.“

Þetta skrifar Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í pistli sem birtist á Pressunni eftir hádegi. Þar fjallar hann um þær umræður sem skapast hafa í kjölfar ákvörðunar Rússa að leggja innflutningsbann á vörur frá Íslandi.

Brynjar segist ekki ætla að réttlæta aðgerðir Rússa og hann leggi mikið upp úr samstöðu bandalagsþjóða Íslendinga. Þá ætli hann ekki heldur að réttlæta allt sem bandalagsþjóðir Íslands geri. Hins vegar segir hann nauðsynlegt fyrir Íslendinga, ef verulegir hagsmunir skipta þá einhverju máli, að undirbúa vel ákvarðanir af þessu tagi.

„Dettur einhverjum í hug að við hefðum, án nokkurra annarra ráðstafana, tekið þátt í þessu vitandi hvernig Rússar brygðust við? Og dettur einhverjum í hug að stóru löndin í ESB hefðu farið í þessar aðgerðir ef viðlíka hagsmunir væru undir þar? Við verðum bara að viðurkenna sofandahátt okkar og getum tæplega bakkað út núna með því að afturkalla stuðninginn við þessar viðskiptaþvinganir,“ skrifar Brynjar.