Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, tilkynnti óvænt síðastliðinn þriðjudag að hann væri hættur störfum hjá félaginu. Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Existu sem er eigandi Skipta, segir uppsögnina hafa komið stjórninni á óvart. „Hann hélt kynningu fyrir okkur og í lok hennar tilkynnti hann okkur að hann hefði sagt upp störfum. Það var enginn þrýstingur af okkar hálfu. Þetta var að hans eigin ósk.“

Skipti skulduðu 91 milljarð króna um mitt ár 2010 og ljóst að það þarf á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda til framtíðar, en gríðarleg skuldsetning félagsins hefur gert það að verkum að Símasamstæðan tapaði samtals tæpum 10 milljörðum króna á árunum 2005 og fram til loka árs 2009.

Að sögn Péturs mun ný stjórn verða kosin hjá Skiptum á næstunni. Þar munu einhverjir sem þar sitja í dag verða áfram en einhverjir nýir líka koma inn.

Skipti breytti skipulagi fyrirtækisins í lok október síðastliðins til að laga það að minnkandi umsvifum og breyttum áherslum. Við það tækifæri var 11 starfsmönnum Skipta sagt upp störfum og sviðum fækkað.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .