Gengið hefur verið frá ráðningu Brynjólfs Ægis Sævarssonar í starf forstöðumanns Viðskiptaþróunar á Einstaklingssviði  hjá Landsbankanum. Þetta kemur fram í frétt á vef bankans. Þar segir að alls sóttu 26 um starfið, 7 konur og 19 karlar. Brynjólfur mun hefja störf sem forstöðumaður á næstu dögum.

Brynjólfur Ægir Sævarsson.
Brynjólfur Ægir Sævarsson.

Í fréttinni segir að Brynjólfur hefur starfað í Landsbankanum frá árinu 2005. Fyrst sem sérfræðingur í fyrirtækjaviðskiptum í útibúunum á Akureyri og Háaleiti, síðar settur útibússtjóri í Háaleiti og útibússtjóri í Vesturbæ frá 2007 og loks sem svæðisstjóri Austursvæðis frá ársbyrjun 2014. Hann hefur undanfarin ár unnið að verkefnum varðandi umbreytingar og framþróun bankaviðskipta á Einstaklingssviði.

Brynjólfur er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið vottunarnámi fjármálaráðgjafa og löggildingu í verðbréfamiðlun. Hann er í sambúð með Áslaugu Ármannsdóttur og eiga þau 2 börn.

Samhliða ráðningu Brynjólfs verður gerð sú breyting að svæðisstjórum einstaklingsútibúa á höfuðborgarsvæði fækkar úr 3 í 2. Guðrún S. Ólafsdóttir svæðisstjóri Suðursvæðis mun framvegis starfa sem svæðisstjóri útibúa bankans á Austur- og Suðursvæði en Þorsteinn Þorsteinsson verður áfram svæðisstjóri á Vestursvæði.