Brynjólfur Bjarnason, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, ætlar að hætta störfum eftir aðalfund hans 27. mars næstkomandi. Hann tók við starfinu af Finnboga Jónssyni sem hætti fyrir tveimur árum.

Haft er eftir Brynjólfi á vefsíðu Framtakssjóðsins að ákvörðunin eigi sér nokkurn aðdraganda. Hann eigi stóra og góða fjölskyldu og mörg áhugamál og því hafi löngun eftir því að ráða sínum eigin tíma hafa orðið sífellt áleitnari.

Áður en Brynjólfur tók við starfi framkvæmdastjóra Framtakssjóðsins hafði hann gegnt viðamiklum störfum í atvinnulífinu. Hann var forstjóri Símans og Skipta á árunum 2002 til 2010, forstjóri Granda frá 1984 til 2002 og framkvæmdastjóri Almenna Bókafélagsins frá árinu 1976 til 1983.