Brynjólfur Stefánsson hefur verið ráðinn sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum hf., sem er elsta eignastýringarfyrirtæki landsins og dótturfélag Íslandsbanka.

Brynjólfur starfaði í tíu ár hjá fjárfestingabankanum Morgan Stanley í New York og var yfirmaður afleiðubókar bankans í hráolíu sem er markaðsleiðandi á þessu sviði á Wall Street. Hann stýrði þar viðskiptum og stöðutöku en afleiðbókin var oft á meðal tekjuhæstu bóka hrávörudeildar Morgan Stanley. Áður starfaði Brynjólfur í áhættustýringu Íslandsbanka.

Brynjólfur er fjármálaverkfræðingur að mennt og lauk meistaranámi við Columbia háskóla í New York.

Með vandfundna sérfræðiþekkingu

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða segir mikinn feng fyrir félagið að fá Brynjólf til liðs við félagið. „Hann hefur mikla reynslu sem mun nýtast sérstaklega vel við að auka vöruframboð og þjónustu félagsins við sparifjáreigendur,“ segir Kjartan Smári.

„Horft til framtíðar eru fjárfestingar í hrávörum, s.s. orku, matvælum og góðmálmum, spennandi fjárfestingarkostur en sérfræðiþekking í eignaflokknum hefur verið vandfundin hér á landi þar til nú. Framundan eru spennandi tækifæri á hrávörumörkuðum og markmið okkar er að viðskiptavinir Íslandssjóða muni njóta góðs af þeim. Við munum jafnframt kynna hrávörumarkaði frekar í fræðslu- og greiningarstarfi á næstu misserum.“