*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 28. desember 2007 14:33

?Brýnt að endurvekja tiltrú á markaði?

Ritstjórn

Umbrot á fjármálamörkuðum heimsins undanfarna mánuði með tilheyrandi lánsfjárskorti og gengislækkunum hlutabréfa hefur hverfandi áhrif á rekstur Atorku og félög sem undir það heyrir, að sögn Magnúsar Jónssonar, forstjóra félagsins. „Við munum fara okkur ögn hægar í fjárfestingum og hlúa betur að innri vexti þeirra fyrirtækja sem við höfum fjárfest í, og það vill svo vel til að innri vöxtur í þeim er mjög góður,” segir Magnús.

„Lánsfjársþurrðin á markaðnum hefur vitanlega áhrif á alla en við höfum sterka lausafjársstöðu og góðar lánalínur, þannig að við erum í góðri aðstöðu til að nýta okkur stöðuna og kostirnir munu vega upp gallana. Staðan er vitaskuld þannig að menn verða að spila vel úr þeim spilum sem þeir hafa á hendi og fara sér e.t.v. aðeins hægar, og það á við alla fjárfesta. Ég tel einnig mikilvægt að þeir bankar sem áttu stærstan skerfinn í undirmálslánunum í Bandaríkjunum hreinsi þau hratt úr bókum sínum, ef nokkur er kostur, til að endurvekja tiltrú á markaði. Það er brýnt að endurvekja sjálfstraust manna og traust á milli þeirra og banka. Margir hafa teiknað ljótar grýlur á veggi og þora ekki að lána hver öðrum, sem þarf að breyta hið fyrsta, en ég á allt eins von á að hræringar og lægð á mörkuðum geti teygt sig út næsta ár að öllu óbreyttu.”

Aðspurður um íslenska hagkerfið kveðst Magnús telja vonbrigði að ekki hafi tekist betur en raun ber vitni að hemja verðbólguna og sömuleiðis sé staða krónunnar og áhættan henni samfara áhyggjuefni. „Það er gríðarlega kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki og almenning að halda krónunni, en ég vil ekki ganga svo langt að segja að kasta eigi henni að óyfirveguðu máli. Ég tel hins vegar að skoða beri afar vandlega kosti og galla henni samfara og hvaða leiðir koma til greina,” segir hann.

Gjöfult rekstrarár hjá Atorku

Magnús segir að framundan hjá Atorku næstu mánuði sé áframhaldandi uppbygging á verkefnum í endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnshreinsigeirum auk þess sem einnig sé horft til tækifæra í heilbrigðisgeiranum, sérstaklega í Asíu. „Það er raunar athyglisvert að í Asíu, þar sem við höfum verið að hasla okkur völl, er vandinn gagnstæður við það sem er að gerast á Vesturlöndum, of mikil þensla og of mikið peningamagn í umferð,” segir Magnús.

Hann segir að rekstrarárið sem nú er að ljúka líti mjög vel út hjá Atorku og hafi verið félaginu gjöfult. „Við áttum vel heppnaða útgöngu úr Jarðborunum með sölunni til Geysir Green, högnuðumst þar um ellefu milljarða króna, og þótt við höfum áður skilið við fyrirtæki með góðum hagnaði er þetta viðamesta útganga okkar frá upphafi starfseminnar. Við erum nú kjölfestufjárfestir í Geysi Green Energy og teljum að á næstu tólf mánuðum eða svo muni menn sjá árangurinn af því starfi sem verið er að vinna hjá því félagi og berum miklar væntingar til þess. Einnig þrefölduðum við umsvifin í fyrirtækinu InterBulk Investments sem við eigum ásamt skoskum aðilum, viðskipti upp á um 15 milljarða króna, og þótt hlutabréfagengið hafi ekki verið vonum samkvæmt teljum við að verið sé að skapa mikil verðmæti til framtíðar. Þetta er áhugavert fyrirtæki og leiðandi á sínu sviði.

Sömuleiðis fjárfestum við í Clyde Process Solutions, sem er fyrirtæki sem starfar á mjög áhugaverðu og fæst m.a. við meðhöndlun á hráefni í framleiðsluferlum, ásamt tengdum mengunarvarnarbúnaði. Þá keyptum við tæplega 14 %  hlut í Asia Environment Holdings og erum annar stærsti hluthafinn í félaginu á eftir frumkvöðlum þess. Auk hlutar í kínverska félaginu Shanghai Century Acquistion Corp, svo eitthvað sé nefnt. Vöxturinn hefur verið mikill og við sjáum fram á áframhaldandi vöxt með samblandi af því að losa um eignarhluta í arðbærum fjárfestingum og taka þátt í nýjum verkefnum. Þetta var ár uppskeru og uppbyggingar í verkefnum sem skila munu sér á næstu misserum.”