Starfshópur innan Almannatengslafélags Íslands (AÍ) hefur sent forsætisráðuneytinu grunnhugmyndir að almannatengslum fyrir Íslands hönd, vegna þeirra erfiðleika sem nú steðja að ímynd landsins á erlendis.

Ein helsta tillaga AÍ er að ráðin verði alþjóðleg almannatengslaskrifstofa til verka tafarlaust.

„Það kann ekki góðri lukku að stýra að fela viðkvæmt starf er tengist ímynd Íslands í hendur embættismanna eða ungliða stjórnmálaflokkanna. Þarna þarf að vera valin maður í hverju rúmi þar sem þjóðin hefur ekki efni á því að taka feilspor,“ segir í tilkynningu frá AÍ.

Í tillögum AÍ kemur jafnframt fram að starfshópurinn telji vel hafa verið staðið að upplýsingamiðlun hérlendis allt frá upphafsdögum bankakreppunnar.

„Erlendis hafi dýrmæt tækifæri í upplýsingamiðlun hins vegar farið forgörðum vegna þess að ekki var leitað ráðgjafar í almannatengslum í hverju landi fyrir sig. Svo virðist sem enn sé hik í þeim efnum af hálfu stjórnvalda og ætlunin að fjarstýra upplýsingamiðluninni héðan. Það er borin von,“ segir í tillögunum.

AÍ segir að fá þurfi „heildrænt ástandsmat“, sem byggi á mati stjórnvalda og því sem almannatengslafyrirtæki gera hvert á sínum markaði. Samhliða því þurfi að koma á fót öflugri og samhæfðri upplýsingamiðlun „á þeim svæðum sem eldurinn brennur hvað heitast og er að valda þjóðinni stórfelldum skaða sem stendur“, t.d. í Bretlandi, á Norðurlöndunum og í Niðurlöndum.

Einnig þarf að mati AÍ að virkja hagsmunasamtök, fyrirtæki, félög og einstaklinga í að koma okkar sjónarmiðum á framfæri erlendis.