Mjög erfitt er að skera niður opinberar framkvæmdir á næstunni þannig að það hafi markverð áhrif á efnahagslífið, að mati Arnórs Sighvatssonar aðalhagfræðings Seðlabankans. Björn Rúnar Guðmundsson hagfræðingur hjá greiningardeild Landsbankans tekur undir þetta, en segir brýnt að ríkisstjórnin sendi frá sér skýr merki og endurheimti trúverðugleika í efnahagsmálum, ekki síst í augum erlendra aðila.

Viðskiptablaðið leitaði álits þeirra og fleiri í tilefni af þjóðhátíðarávarpi Geirs Haarde forsætisráðherra, þar sem fram kom að til greina kæmi að fresta opinberum framkvæmdum til að ná jafnvægi í efnahagslífinu. Í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, sem birt var í gær, kemur fram að umtalsvert hægir á í efnahagslífinu á næsta ári. Í því ljósi vakna spurningar um hvort þetta sé yfir höfuð skynsamlegt.

Sérfræðingar sem blaðið ræddi við eru sammála um að það kunni að orka tvímælis að draga úr framkvæmdum andspænis yfirvofandi niðursveiflu. Hins vegar sé brýnt að slá á væntingar og það megi meðal annars gera með táknrænum yfirlýsingum og aðgerðum.

Ekki síst "symbólísk" ummæli

Það var alltaf hugmyndin að skera niður framkvæmdir 2005 og 2006 en auka þær aftur 2007 til að mæta áhrifunum af því að stórframkvæmdum við virkjanir og álbræðslur lýkur," segir Arnór og bætir við að hann hafi engar vísbendingar fengið um hvað felist í orðum forsætisráðherra varðandi mögulega frestun framkvæmda.

"Þegar opinberar framkvæmdir eru frekar litlar eins og nú er, fyrir utan stóriðjuframkvæmdirnar, er auðvitað erfitt að skera mjög djúpt þannig að það hafi einhver markverð áhrif. Þannig að maður á eftir að sjá hvað hangir á spýtunni; hvort þetta er eitthvað meira en bara symbólískt. En ég hygg að það verði mjög erfitt að skera niður á þessu ári þannig að mark sé á takandi, og sennilega pólitískt erfitt að bera niður annars staðar en í framkvæmdum. Menn geta auðvitað hætt við einhverjar framkvæmdir sem áttu að aukast á næsta ári og þannig framlengt tímabil aðhalds. Hugsanlega eru menn að horfa á það."

Spurður um hvort skynsamlegt sé að framlengja aðhaldstímabilið segir Arnór það vel hugsanlegt. Viðskiptahallinn sé ógnvænlega mikill og honum verði ekki náð niður nema með því að draga úr eftirspurn. Þess vegna sé ekki endilega skynsamlegt að slaka á aðhaldi og "spýta í", jafnvel þótt spár bendi til að eitthvað hægist um í efnahagslífinu.

Ný þjóðhagsspá: Hægist um á næsta ári

Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins bendir ótvírætt til að það hægist um. Hagvöxtur fer úr 4,7% á þessu ári niður í 0,9%. Athygli vekur að það er helmingi minni hagvöxtur en ráðuneytið spáði í apríl, sem bendir til að horfurnar varðandi næsta ár fari býsna hratt versnandi.

Verðbólga fer úr 7,8% á þessu ári niður í 4,6% á því næsta og 2,6% á þarnæsta ári, samkvæmt spánni.

Ein af forsendum spárinnar er að tekjuafgangur ríkissjóðs breytist í halla á næsta ári, enda er "reiknað með aukinni fjárfestingu til að veita mótvægi þegar hægir á efnahagsstarfsseminni" í samræmi við langtímaáætlun ríkissjóðs. Nánar tiltekið aukist fjárfesting hins opinbera úr 28 milljörðum á þessu ári í 37 milljarða á því næsta. Þetta er byggt á áætlun sem ríkisstjórnin samþykkti síðast liðið haust.

Önnur forsenda er að skattalækkanir komi til framkvæmda um næstu áramót eins og boðað hafði verið og að yfirstandandi viðræðum um kjarasamninga lykti með 4% kostnaðarhækkun, sem þýði með hækkunum um síðustu áramót að laun á almennum vinnumarkaði hækki um samtals 9% á árinu.

Hvaða framkvæmdir?

Framkvæmdirnar sem hafa líklega oftast verið nefndar í fjömiðlum sem dæmi um það sem megi fresta eru tónlistar- og ráðstefnuhöll í Reykjavík, Sundabraut og uppbygging Landspítala (svonefnt "hátæknisjúkrahús"). Stóriðjuáform hafa einnig verið nefnd.

Ekki verður hins vegar séð að neitt af þessu komi núverandi þenslu beinlínis við. Ekki hefur verið ákveðið hvar Sundabraut eigi að liggja og þótt nýr borgarstjórnarmeirihluti ætli að ákveða það á þessu ári er eftir að hanna mannvirkið og bjóða verkið út. Hönnun nýs háskólasjúkrahúss lýkur ekki fyrr en 2009 og gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist það ár. Framkvæmdir við tónlistarhús í Reykjavík hefjast ekki af krafti fyrr en seint á næsta ári að sögn Stefáns Hermannssonar framkvæmdastjóra Austurhafnar-TR, þótt undirbúningsvinna við að ryðja burt mannvirkjum sé hafin. Varðandi nýjar stóriðjuframkvæmdir (Straumsvík, Norðurland og Helguvík) benti greiningardeild KB banka á það í skýrslu í febrúar að ekki væru horfur á að framkvæmdir hæfust við neitt af þessu fyrr en á næsta ári,því þá yrði hugsanlega byrjað að stækka álverið í Straumsvík. Sú stækkun myndi hins vegar "ekki valda miklum ruðningsáhrifum" miðað við íslensku hagsveifluna.

Allt virðist þetta því vera framtíðarmúsík sem litlu breytir um stöðuna í dag. Þegar horft er á ráðstöfun söluandvirðis Landssímans, sem ákveðin hefur verið með lögum frá Alþingi, kemur í ljós að stærsti einstaki liðurinn sem koma á til framkvæmda á næsta ári er Sundabraut fyrir 1.500 milljónir króna. Óvíst er hins vegar að undirbúningur verði kominn nægilega langt á veg til að hægt verði að hefja framkvæmdir. Næststærsti framkvæmdaliðurinn er breikkun Reykjanesbrautar fyrir 700 milljónir. Kannski þar sé komin framkvæmdin sem til greina kemur að fresta?

Sálfræðihernaður?

En kannski voru ummæli forsætisráðherra fyrst og fremst sálfræðihernaður, eins og Arnór Sighvatsson ýjaði að hér að framan. Allir sem rætt er við leggja áherslu á að nauðsynlegt sé að "slá á væntingar".

Þóra Helgadóttir hagfræðingur hjá greiningardeild KB banka segir að yfirlýsingar um frekari framkvæmdir, svo sem stóriðju, hafi undir eins áhrif á væntingar markaðarins þótt ekki standi til að hefja framkvæmdir fyrr en eftir nokkur ár. Nauðsynlegt sé að slá á þessar væntingar og þess vegna séu yfirlýsingar stjórnvalda skynsamlegar -- en það sé alveg rétt að hugsanlega myndi það auka á samdráttinn á næsta ári að fresta framkvæmdum.

Björn Rúnar, kollegi hennar hjá Landsbankanum, segir að verkefni stjórnvalda sé að stórum hluta til "sálfræðilegt", en þó ekki eingöngu. "Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þessa ríkisstjórn að gefa út skýr merki um að hún ráði við þessa stöðu. Ég held að það sé ekki rétt að einblína á spárnar um hagvöxt á næsta ári, sem mun vitanlega minnka mjög hratt þegar stóriðjuframkvæmdirnar detta út. Lykilatriðið snýr að trúverðugleika okkar -- íslenska hagkerfisins og stjórnvalda -- ekki síst gagnvart erlendum aðilum sem fylgjast nú grannt með okkur. Álit þeirra skiptir okkur nú orðið mjög miklu máli, ólíkt því sem áður var, enda bankakerfið orðið alþjóðavætt og mörg fyrirtæki háð erlendum mörkuðum um fjármögnun. Við höfum eiginlega allan heiminn á bakinu. Og ef niðurstaðan verður miklar launahækkanir, skattalækkanir, hækkun barnabóta og vaxtabóta og auk þess sveitarfélögin með sína pakka, þá er ansi hætt við að krónan falli enn frekar, sem þýðir meiri verðbólgu, sem þýðir nýjar kröfur um launahækkanir -- og svo framvegis."

"Þurfum harkalega niðursveiflu"

Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, sem mjög hefur talað fyrir því að draga úr opinberum útgjöldum, segist vilja að söluandvirði Landssímans verði tekið og sett í gjaldeyrisvarasjóð. Þannig verði markaðinum gefið skýrt merki um að stjórnvöld ætli sér að verja gengi krónunnar. Í öðru lagi þurfi að taka á rekstrarvanda ríkisins. Í þriðja lagi þurfi að fá sveitarfélögin til að taka þátt í að ná böndum á opinber útgjöld "með góðu eða með óhefðbundnum aðferðum," til að "slá á væntingar samfélagsins".

Spurður hvað felist í óhefðbundnum aðgerðum svarar Einar Oddur: "Ekki með góðu." -- Sveitarfélögin hafi engu minni hagsmuni af því en ríkið að hér ríki jafnvægi, "auk þess sem ég tel að Íslendingar eigi að standa saman um að láta ekki hrakspár Dananna rætast." Mestu skipti hins vegar í þeim efnum að treysta og verja gengi krónunnar.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem nú vinnur að samkomulagi við ASÍ um kjarasamninga, segir mikilvægt að "hreinsa brautina og nota niðursveifluna sem er að koma" til að hleypa verðbólgunni í gegnum hagkerfið. Ella sé hætt við að tveggja stafa verðbólga festist í sessi og uppsveiflan, sem væntingar eru um að verði árin 2008 til 2010, gangi okkur úr greipum.

"Með því að taka á vandanum strax teljum við að við getum notað niðursveifluna til að moka verðbólgunni út. Niðursveiflan þarf að vera nógu harkaleg til að ná verðbólgunni niður," segir Vilhjálmur.

Það er líklega með hliðsjón af þessari "hernaðaráætlun" sem skilja ber ummæli forsætisráðherra, andspænis yfirvofandi niðursveiflu, um að til greina komi að skera niður framkvæmdir.