Niðurstaðan í Icesave-málinu er eins og best verður á kosið, að sögn Ragnars F. Ólafssonar, eins af aðstandendum InDefence-hópsins, sem barðist gegn Icesave-samningunum á sínum tíma. „Auðvitað hafði maður áhyggjur af því að við myndum ekki bera fullan sigur úr býtum, en sem betur fer var dómstóllinn á sömu skoðun og við hvað varðar meintar ábyrgðir íslenska ríkisins.“

Ragnar segir að málið og ferill þess sýni að almenningi sé fyllilega treystandi til þess að koma að erfiðum málum í stjórn ríkisins. „Þetta er líka stór sigur fyrir stjórnarskrá Íslands. Í þessu máli sýndi þjóðin að henni er treystandi til þess að hafa afskipti af og taka ákvarðanir um jafnvel flóknustu efnahagsmál. Þetta á líka að vekja fólk til umhugsunar um þær tillögur sem nú liggja fyrir um breytingar á stjórnarskránni. Þar er beinlýnis gert ráð fyrir því að ekki sé hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um þjóðréttarskuldbindingar Íslands. Það er brýnt að binda ekki heldur almennings að þessu leyti,“ segir Ragnar.