„Þar sem íslenskur markaður er sérstaklega smár og háður ýmsum séreinkennum felst ein stærsta áskorun samkeppnisyfirvalda í því að tryggja rétt jafnvægi á milli stærðarhagkvæmni og virkrar samkeppni.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu frá Viðskiptaráði sem segir samkeppnislöggjöfina hér á landi vera strangari en á Norðurlöndunum og í Evópu.

„Íslensk fyrirtæki eiga því erfitt með að ná fram stærðarhagkvæmni í sama mæli og erlendir keppinautar sem getur rýrt samkeppnishæfni Íslands sem heild.“

Viðskiptaráð fagnar í yfirlýsingunni að stjórnvöld hafi lýst yfir stuðningi við endurskoðun lagana með það fyrir augum að einfalda framkvæmd þeirra og auka skilvirkni. Leggur ráðið áherslu fimm atriði sem sé brýnt að endurskoða.

Í fyrsta lagið vill Viðskiptaráð að veltuviðmið verði hækkuð fyrir tilkynningarskyldu samruna. Í annan stað að réttaröryggi fyrirtækja sé tryggt með því að fella niður áfrýjunarheimild Samkeppniseftirlitsins til dómstóla. Í þriðja lagi að heimild Samkeppniseftirlitsins til inngrips í fyrirtæki, án þess að viðkomandi fyrirtæki hafi gerst brotlegt við samkeppnislög, sé felld brott. Þá vill ráðið að undanþágur vegna samstarfs fyrirtækja verði afnumdar til samræmis við framkvæmd í Evrópu, og fyrirtæki leggi sjálfsmat á hvort samstarf þeirra falli innan undanþáguskilyrða. Og loks, að réttarstaða fyrirtækja við rannsókn mála sé bætt.