Sex af 18 nefndarmönnum í Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna skila samtals fjórum sérálitum. Ruth Wedgwood, fulltrúi Bandaríkjanna, skilar einu þeirra, þar sem hún segir að Mannréttindanefndin hafi takmarkað vald til að fjalla um efnahagsleg löggjafarmálefni sem lúti að 26. grein Alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórmálaleg réttindi.

„Meint mismunun hér var milli sjómanna sem störfuðu fyrir og eftir ákveðinn tíma. Ekkert bendir til þess að þessi sundurgreining hafi byggt á þjóðerni, trú, kyni, stjórnmálaskoðun eða nokkru því einkenni sem fjallað er um í 26. grein eða annars staðar í samningnum. Það er algengt fyrirkomulag hjá ríkjum að veita þeim sem áður störfuðu í atvinnugrein réttindi — m.a. réttindi til leigubílaaksturs, landbúnaðarstyrkja og rétt til útsendinga á ákveðnu tíðnisviði. Frjáls aðgangur að nýjum atvinnugreinum kann að vera æskilegur, en Alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var ekki samningur um afnám efnahagshafta.

Ef nefndin ætlar að ná árangri í að vernda hin mikilvægu réttindi sem falla undir samninginn, verður hún einnig að virða takmörk sín, bæði lögleg og raunsæ,“ segir Wedgwood í áliti sínu.

Elisabeth Palm frá Svíþjóð, Ivan Shearer frá Ástralíu og rúmenski fulltrúinn Iulia Antoanella Motoc komast að þeirri niðurstöðu í séráliti sínu að íslenska ríkið hafi gætt jafnræðis, með lagasetningu sinni og réttarmeðferð, milli almannahagsmuna og hagsmuna einstakra sjómanna. „Að auki komumst við að þeirri niðurstöðu að sundurgreiningin milli þessara tveggja hópa sjómanna sé byggð á hlutlægum grunni og í réttu hlutfalli við lögmætt markmið hennar. Af því leiðir að ekki hefur verið brotið gegn 26. grein í þessu máli,“ segir í sérálitinu.

Sir Nigel Rodley, fulltrúi Bretlands, segist í séráliti sínu ekki geta komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn samningnum með framgöngu sinni gagnvart kærendum.

„Ríkið hefur vakið athygli á gögnum sem styðja staðhæfingu þess um að kvótakerfið hafi verið hagkvæmasta fyrirkomulagið og því skynsamlegt og í réttu hlutfalli. Þetta eru raunsæ rök sem kærendum tekst ekki að svara á fullnægjandi hátt í svari sínu. Það var frumskilyrði að þeir tækjust á við þessa röksemd [...]“ segir hann í séráliti sínu.

Þá segir að álit nefndarinnar virðist byggjast á því að fiskistofnarnir við Ísland séu sameign íslensku þjóðarinnar. „Ég sé ekki hvernig sömu málsatvik í öðru landi, sem ekki hefur slíkt sameignarákvæði, getur þá réttlætt það að nefndin komist að annarri niðurstöðu.“

Japaninn Yuji Iwasawa segir í séráliti sínu að mismunun sú sem um ræðir sé að sínu viti ekki byggð á „eign“, heldur hlutlæg mismunun sem byggi á atvinnustarfsemi einstaklinga fyrir ákveðinn tímapunkt.