Zbigniew Brzezinski, einn áhrifamesti sérfræðingur Demókratarflokksins í utanríkismálum, hefur lýst yfir stuðningi við Barack Obama og sagt að öldungadeildarþingmaðurinn frá Illinois hafi betri skilning á þróun alþjóðamála heldur en helsti keppinautur hans í prófkjöri demókrata, Hillary Clinton.

Þetta lét Brzezinski, sem er fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Jimmy Carter Bandaríkjaforseta, hafa eftir sér í viðtali sem við hann var tekið í þættinum "Political Capital with Alan Hunt" á Bloomberg viðskiptasjónvarpsstöðinni. Hann vísaði einnig á bug gagnrýni sumra stjórnmálaskýrenda um meint reynsluleysi Obama samanborið við Clinton. "Slík staða [að vera forsetafrú Bandaríkjanna] er engin raunverulegur undirbúningur til þess að verða forseti. Harry Truman hafði ekki mikla reynslu þegar hann tók við forsetaembættinu árið 1945, ekki frekar en John F. Kennedy," segir Brzezinski.

Brzezinski gagnrýndi að sama skapi áherslur Clinton í utanríkismálum og sagði þær vera "mjög hefðbundnar". Að mati Brzezinski þurfa Bandaríkin að ráðast í grundvallarendurskoðun á utanríkisstefnu sinni í ljósi þeirrar breyttu stöðu sem upp er komin í alþjóðamálum í kjölfar innrásarinnar í Írak. Að sögn Brzezinski er Obama sá frambjóðandi Demókrataflokksins sem er best til þess fallinn: "Hann hefur bæði "kjark og gáfur" til að hrinda slíkum breytingum í framkvæmd."

Ræða Bush "viðurkenning á stórfelldum mistökum" stjórnarinnar
Barack Obama var sakaður um það nýverið af Hillary Clinton að sýna "ábyrgðarleysi" og "barnaskap" þegar hann sagðist reiðubúinn til að funda á fyrsta ári sínu sem Bandaríkjaforseti með leiðtogum óvinaríkja á borð við Sýrland og Íran. Brzezinski gefur lítið fyrir þau ummæli Clinton og segir að í raun þýði þau áframhald á núverandi stefnu Bush-stjórnarinnar um að eiga aðeins í viðræðum við þá ráðamenn sem séu á sama máli á Bandaríkin í flestum meginatriðum. Slík stefna í utanríkismálum er ekki líkleg til árangurs til lengri tíma litið, segir Brzezinski.

Þrátt fyrir að Clinton muni ekki hljóta stuðning Brzezinski í prófkjörinu hefur hún engu að síður aflað sér stuðnings annarra þungavigtarmanna Demókrataflokksins í utanríkismálum, meðal annars Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Richard Holbrooke, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, en bæði gegndu þau störfunum í valdatíð Bill Clinton, eiginmanns Hillary Clinton.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.