Stjórn BSRB leggur til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður í 23% í stað 20% eins og gert er ráð fyrir í nýlögðu fjárlagafrumvarpi.

Þetta kemur fram á vef BSRB í dag en bandalagið segir að hækkun fjármagnstekjuskatts í 23% hefði í för með sér 3,75 milljarða króna í tekjuaukningu. Fjármagnstekjuskattur er nú 18% en skv. frumvarpinu stendur til að hækka hann í 20% sem gefa á ríkinu 1,5 milljarða króna í tekjuaukningu.

Þá segir stjórn bandalagsins að með slíkri breytingu væri hægt að hætta við niðurskurð á fæðingarorlofssjóði, barnabótum og vaxtabótum og beita skattkerfinu til jöfnuðar.

Þá mótmælir BSRB harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að sækja rúma 2 milljarða króna til barnafólks og þeirra lægst launuðu, eins og það er orðað í ályktun stjórnarinnar.

„Enn einu sinni á að skerða greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi, að þessu sinni um 1 milljarð króna,“ segir í stjórninni.

„Þá á að skera barnabætur niður um 900 milljónir króna og vaxtabætur um 270 milljónir króna. Alls gera þetta 2,17 milljarða króna.“

Loks segir stjórn BSRB að þessar breytingar komi verst niður á barnafjölskyldum og láglaunafólki.

„Ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og velferð ætti að leita annað eftir tekjumöguleikum,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

„Þær ákvarðanir sem teknar eru í fjárlagafrumvarpinu hafa áhrif á hvernig samfélag við mótum til næstu ára. Hlífum þeim sem  verst standa og sækjum  frekar til þeirra sem meira hafa á milli handanna.“