BSRB mótmælir harðlega hugmyndum fjármála- og efnahagsráðherra um að einkavæða Íslandspóst ohf.,” skrifar Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, í opnu bréfi til Bjarna Benediktssonar sem birt var í dag á heimasíðu Bandalagsins.

Magnús segir engin rök fyrir einkavæðingu á póstþjónustu. Hún eigi að vera órjúfanlegur hluti af almannaþjónustunni og telur Magnús að ljóst að einkavæðing myndi hafa í för með sér verri þjónustu, aukinn kostnað fyrir almenning og slæm áhrif á réttindi starfsfólks.

„Póstþjónusta er samfélagsþjónusta rétt eins og heilbrigðisþjónustan, löggæsla, samgöngur og fleira. Þar þarf fyrst og fremst að horfa til þess að almenningi um allt land sé tryggð góð þjónusta. Slíkt er ekki hægt nema almannaþjónustan sé í höndum hins opinbera sem skipuleggi, stýri og fjármagni hana með jafnan rétt almennings að leiðarljósi.

Að mati BSRB eru engin haldbær rök fyrir því að einkavæða þjónustuna. Vandi Íslandspósts hefur ekki verið eignarhald félagsins heldur skortur á stefnumótun. Nú þegar endurskipulagning fyrirtækisins er framundan er fráleitt að mati bandalagsins að ætla sér að hefja undirbúning að einkavæðingu Íslandspósts.

Einkavæðing póstþjónustu í Evrópu hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt með bættri þjónustu og minni kostnaði. Þvert á móti hefur hún haft í för með sér verri þjónustu, sér í lagi í dreifbýli, hækkandi gjaldskrár og slæm áhrif á vinnuskilyrði og réttindi starfsfólks. Í öðrum heimshlutum hefur verið snúið af braut einkavæðingar, til dæmis í Argentínu þar sem reynslan af einkavæðingu póstþjónustunnar var hörmuleg.

BSRB hvetur til þess að hætt verði við öll áform um frekari einkavæðingu samfélagslega mikilvægra innviða,” skrifar Magnús Már Guðmundsson.