BSRB mótmælir ákvörðun kjararáðs harðlega um að hækka verulega laun ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytum og segja hana ganga þvert gegn rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins.

Afmarkaður hópur hálaunafólks

Segir í fréttatilkynningu frá BSRB að að með ákvörðuninni sé verið að draga út afmarkaðan hóp hálaunafólks og hækka laun þeirra langt umfram það sem aðrir hópar launafólks í landinu hafa fengið.

Segir þar að sá rökstuðningur kjararáðs fyrir hækkuninni, að þetta sé leiðrétting vegna aukins álags í starfi, eigi einnig við um aðra hópa sem ekki hafa fengið sambærilegar launahækkanir vegna álags.

„Við hjá BSRB gerum þá kröfu að allir landsmenn taki þátt í því að byggja upp nýtt vinnumarkaðskerfi og höfum unnið að því síðustu ár að breyta kerfinu þannig að við losnum við endalausar leiðréttingar starfsstétta. Aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér rammasamkomulag sem átti að koma í veg fyrir slíkt höfrungahlaup á vinnumarkaði. Þessi hækkun launa ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra hjá ráðuneytunum er langt umfram það samkomulag og því algerlega óásættanleg“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB í tilkynningunni.