Níu starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli hefur verið sagt upp störfum. Um er að ræða starfsmenn sem sinnt hafa vopnaleit og öryggisvörslu.

Þetta kemur fram á vef BSRB.

„Þetta eru slæmar fréttir", sagði Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, í frétt á vef bandalagsins. Hann kveðst þar óttast að meira kunni að vera í pípunum bæði á Keflavíkurflugvelli og jafnvel hjá öðrum lögregluembættum. „Stjórnvöld hafa verið sinnulaus gagnvart löggæslunni. Víða hefur henni verið gert að skera stórlega niður og svo þröngur stakkur er henni sniðinn að mér kæmi ekki á óvart að okkur taki að berast fleiri svona ótíðindi."

Ögmundur segir þetta í hróplegri mótsögn við vilja þjóðarinnar. „Fólk vill að vel sé búið að löggæslunni í landinu, bæði hvað varðar starfsaðstöðu og launakjör. Því fer fjarri að svo sé gert. Síðan hljótum við að spyrja í þeirri samdráttartíð sem fyrirsjáanleg er, hvort hyggilegt sé að ríki og sveitarfélög dragi saman seglin og segi upp fólki. Við slíkar aðstæður á hið opinbera alls ekki að rifa seglin og fækka starfsfólki. Þetta er því slæmt og óhyggilegt hvernig sem á málin er litið."