Stjórn BSRB hefur fylgst grannt með þróun mála undanfarna daga og haldið tvo stjórnarfundi frá því að ljóst var að íslenskir bankar stæðu frammi fyrir verulegum erfiðleikum sem síðan leiddu til hruns bankakerfisins.

Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og þingmaður VG segir á vef samtakanna ljóst að lífeyrissjóðirnir hafi orðið fyrir miklum búsifjum vegna hrunsins.

„Það dylst engum að við höfum orðið fyrir miklum búsifjum, bæði sjóðir á vegum BSRB að ógleymdum lífeyrissjóðunum,“ segir Ögmundur.

„Hrunið kemur til með að snerta þjóðfélagið í heild sinni það er augljóst. Það er ótímabært að meta tjón lífeyrissjóðanna. Við skulum ekki gleyma því að þótt tapið kunni að vera talið í milljarðatugum þá hafa þessir sömu sjóðir vaxið mjög á undanförnum árum vegna stöðugt hækkandi verðbréfavísitölu.“

Ögmundur segir stóru spurninguna nú vera hvernig þjóðinni reiðir af efnahagslega.

„Auðvitað hræðist maður að keðjuverkun komi til með að valda atvinnuleysi,“ segir Ögmundur á vef BSRB.

„Hér þurfa að koma til markviss og fumlaus viðbrögð af hálfu stjórnvalda og allra þeirra sem koma að ákvarðanatöku í þjóðfélaginu. BSRB mun að sjálfsögðu gera allt sem í valdi samtakanna stendur til að aðstoða við  að beina þróuninni í farsælan farveg. Hér gildir eitt öðru fremur að jafna kjörin í þjóðfélaginu en það er forsenda þess að allir séu tilbúnir til að leggjast á árarnar. Samstaðan er forsenda árangurs.“

Ögmundur segir stjórnir þeirra lífeyrissjóða sem BSRB á aðild að koma saman reglulega og með stuttu millibili til að fylgjast með gangi mála og taka ákvarðanir ef um slíkt er að ræða.

„Hins vegar er það takmarkað sem við getum gert annað en að halda ró okkar. Það er líka talsvert framlag á þessum ólgutímum,“ segir Ögmundur.