Mikill meirihluti félagsmanna Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSBR) samþykkti í atkvæðagreiðslunni að boða til verkfall. Verði af verkföllum er viðbúið að þau muni hafa talsverð áhrif í för með sér enda nær það til starfsmanna heilbrigðisstofnana, skóla, leikskóla og frístundaheimila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB.

Atkvæðagreiðslan stóð yfir fyrstu þrjá daga þessarar viku. Tæplega 87 prósent þeirra sem greiddu atkvæði samþykktu verkfall en rúm átta prósent voru því andvíg. Rúm fjögur prósent skiluðu auðu. Tæplega tveir þriðju þeirra sem höfðu atkvæðisrétt tóku þátt í kosningunni.

Þátttökuprósent á tveimur stöðum, hjá Starfsmannafélagi Garðabæjar og á Heilbrigðisstofnun Suðunesja, náði ekki lágmarksþröskuldi til að teljast gild. Því samþykktu fimmtán félög af sautján að boða til verkfalls. Atkvæðagreiðsla hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er enn í gangi en niðurstöður verða kynntar þegar þær liggja fyrir.

Niðurstöðurnar þýða að um 15.400 manns eru á leið í verkfall að óbreyttu. Boðuðum verkfallsaðgerðum má skipta í tvo hluta. Annars vegar mun þorri félagsmanna hjá ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg leggja niður störf á ákveðnum dögum. Þessi hópur mun leggja niður störf dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl.

Í hinum hlutanum eru smærri hópar starfsmanna sem verða í ótímabundnu verkfalli frá og með 9. mars. Í þeim hópi eru meðal annars starfsmenn í grunnskólum og leiðbeinendur á frístundaheimilum á nær öllu höfuðborgarsvæðinu auk Akraness. Að óbreyttu má því reikna með að frístundaheimilin verði lokuð frá upphafi verkfalls þar til samningar takast. Í þeim hópi eru einnig starfsmenn hjá Skattinum og sýslumannsembættum um allt land.

Þessar aðgerðir munu halda áfram fram í dymbilviku, en hafi samningar ekki tekist fyrir 15. apríl munu félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum fara í ótímabundið allsherjarverkfall þar til samningar hafa tekist.