BSRB varar við einhliða launalækkunum og vill að vísitölugrunnur lána verði endurskoðaður.

Þetta kemur fram í tveimur ályktunum frá framhaldsaðalfundi BSRB sem haldinn var í morgun og birtar eru á vef bandalagsins.

Í fyrri ályktuninni varar BSRB við einhliða launalækkunum.

Þar kemur fram að á ýmsum vinnustöðum, þar með talið stofnunum ríkis og sveitarfélaga, hefur verið um það rætt að lækka laun og skerða kjör til að mæta þverrandi tekjum.

„BSRB er fylgjandi kjarajöfnun ekki síst þegar sverfur að fjárhag fyrirtækja og stofnana,“ segir í ályktun BSRB.

„En að sama skapi er alvarlega varað við einhliða ákvörðunum stjórnenda fyrirtækja og stofnana hvað þetta snertir. Engar almennar ákvarðanir hvað varðar breytingar á kjörum starfsfólks, þar með talið starfshlutfall, á að taka án vitundar og samráðs við starfsfólk og stéttarfélög þess. BSRB leggur ríka áherslu á að ólöglegt er að skerða kjarasamningsbundin kjör starfsmanna.“

Þá segir jafnframt:

„Ráðstafanir stjórnvalda beinist enn sem komið er meira og minna að því að koma byrðunum yfir á almennt launafólk og fráleitt að réttlæta launalækkun og frekari skerðingar á þess kostnað. Þegar hefur almennt launafólk orðið fyrir verulegri kjaraskerðingu af völdum fjármálahrunsins.“

BSRB segir jafnframt enn ekkert bóla á ráðstöfunum til að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og verst þola áföllin.

„Þvert á móti hefur verið boðaður niðurskurður í velferðarkerfinu og er hans þegar farið að gæta. Á tímum samdráttar og erfiðleika á að efla velferðarþjónustuna en ekki veikja hana enda er hún í senn öryggisnet og til þess fallin að jafna aðstöðu fólks,“ segir í ályktun bandalagsins.

Vilja endurskoða vísitölugrunn lána

Í seinni ályktun BSRB er tekið fram að bandalagið vill endurskoða vísitölugrunn lána.

„Háir vextir og óðaverðbólga ógna nú fjárhagslegu öryggi margra fjölskyldna,“ segir í ályktuninni.

„Vaxtabyrðarnar þyngjast með snarhækkandi  verðbólgu. Þegar kaupmáttur fer þverrandi  í ofanálag er þess skammt að bíða að fjöldi fólks geti ekki staðið í skilum og áhvílandi lán á íbúðarhúsnæð verði  langt umfram mögulegt söluverð. Mikil verðbólga á næstu mánuðum gæti skipt sköpum fyrir margar fjölskyldur.  Við þessar aðstæður er brýnt að gripið verði nú þegar til róttækra ráðstafana. Þar skiptir höfuðmáli að létta skuldaklyfjarnar. Í því sambandi þarf að taka verðtryggingu íbúðalána til endurskoðunar enda byggir hún á þriggja ára gömlu neyslumynstri sem engan veginn endurspeglar gjörbreyttar aðstæður í dag.“