Breska stórfyrirtækið BT Group, sem áður hét British Telecom, hefur gert samning við Data Íslandia um að gera hagkvæmnisathugun á byggingu allt að 100 þúsund fermetra gagnamiðstöðvar á Íslandi, segir í fréttatilkynningu.

Data Íslandia leiðir verkefnið og mun svo veita BT Group alhliða þjónustu við langtíma gagnavistun og stýringu rafrænna gagna. Verkefnið er unnið í samvinnu við Farice og íslensk orku- og gagnavistunarfyrirtæki. Tilkoma slíkrar starfsemi á Íslandi mun hafa í för með sér jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Allt að 200 ný störf munu skapast í kringum starfsemi sem þessa á Íslandi, sem og stofnun nýrra stoð- og þjónustufyrirtækja, segir í tilkynningunni.

?Þetta er margbrotið verkefnið og er tækifæri til að kynna samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi,? segir Sol Squire framkvæmdastjóri Data Íslandia. ?Ásamt samstarfsaðilum á Íslandi hefur okkur tekist að setja saman og kynna viðskiptaumhverfi á Íslandi sem vakti áhuga hjá BT Group.?

Meginástæður fyrir ákvörðun þeirra á að framkvæma hagkvæmniathugunina var hreinleiki íslensku orkunnar, áratuga reynsla hér á landi í vistun rafrænna gagna og efnahagslegur stöðugleiki. Stefnt er að því að niðurstöður hagkvæmniathuganinnar liggi fyrir innan nokkurra vikna.

BT Group, með höfuðstöðvar í London, er eitt af stærstu fyrirtækjum í fjarskipta- og upplýsingatækni í heiminum og þjónustar milljónir viðskiptavina í Evrópu, Ameríku og Asíu. Í Bretlandi er BT með leiðandi markaðshlutdeild og þjónustar meira en 20 milljón viðskiptavina.

Data Íslandia veitir alþjóðlegum stórfyrirtækjum og opinberum stofnunum þjónustu við langtíma hýsingu á rafrænum gögnum og margþætta stýringu á þeim.