Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur gengið frá sölu á eignarhlut sínum í búlgarska símafélaginu BTC. Kaupandinn er bandaríska fjármálafyrirtækið AIG Global Investment Group. Heildarverðmæti BTC eru 160 milljarðar króna og er hér um að ræða stærstu skuldsettu yfirtöku í Mið- og Austur Evrópu fram til þessa að því er kemur fram í fréttt Novator.

Markaðsvirði félagsins er um 145 milljarðar króna. AIG hefur tryggt sér kaup á rúmlega 90% í félaginu en stefnir að kaupum á öllu félaginu og afskráningu úr Kauphöllinni í Sófíu.

Novator fjárfesti fyrst í BTC í samvinnu við fjárfestingafélagið Advent International, EBRD, National Bank of Greece, Swiss Re ofl. þegar félagið var einkavætt árið 2004. Straumur, Burðarás og Síminn sem þá var í ríkiseigu tóku einnig þátt í upphaflegu viðskiptunum. Novator jók við hlut sinn á árunum 2005 og 2006 og fer félagið með um 85% í símafélaginu við þessa sölu. Ávöxtun íslensku fjárfestanna sem tóku þátt í fyrstu viðskiptunum fyrir rúmlega tveimur og hálfu ári er nærri fimmföld. Þess má jafnframt geta að Landsbankinn leiddi fjármögnun viðskipta með bréf í félaginu árið 2006 ásamt City Bank. Hagnaður Novators af viðskiptunum er um 55 ? 60 milljarðar króna en annarra íslenskra fjárfesta um 6 milljarðar króna segir í frétt Novator.

Bandaríska fjármálafyrirtækið AIG er leiðandi fyrirtæki í alhliða fjármálaþjónustu um allan heim, þar á meðal tryggingum, fjárfestingum, eignastýringu og fasteignum. Fyrirtækið stýrir nærri 55 þúsund milljörðum króna og hefur um 2000 starfsmenn sem starfa á 44 skrifstofum víða um heim. AIG hefur fjárfest í fjarskiptafélögum víða um heim og hefur mikla reynslu af fjölþættri fjárfestingastarfsemi í Mið- og Austur Evrópu, þar á meðal í Búlgaríu.

BTC hefur tekið stórstigum breytingum frá því félagið var einkavætt að því er segir í tilkynningu. Félagið hefur vaxið samhliða gagngerum endurbótum á tæknibúnaði og margþættum skipulagsbreytingum. Starfsmönnum var fækkað úr um 24 þúsund í 10 þúsund í góðu samráði við stjórnvöld og verkalýðsfélög. Þá hefur verið fjárfest í nýjum tækjabúnaði fyrir nærri 40 milljarða króna og rekstur farsímaþjónustu hafinn við góðar undirtektir Búlgara. BTC býður nú alhliða fjarskiptaþjónustu þar á meðal síma- og farsímaþjónustu, gagnaflutninga og ljósvakamiðlun.