Hagnaður Icelandair Group fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 9,1 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samanborið við hagnað upp á 6,9 milljarða á sama tíma í fyrra.

Hagnaðurinn eftir skatta og fjármagnsliði  nam hins vegar um 5,2 milljörðum króna, samanborið við 4 milljarða á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Icelandair Group fyrir þriðja ársfjórðung.

Mikill munur er á rekstrartekjum félagsins á milli ára. Þannig aukast tekjur af farþegagjöldum um 2,5 milljarða á milli ára á þriðja ársfjórðungi og hafa þannig aukist um 5,8 milljarða á milli ára fyrstu níu mánuði ársins. Á sama tíma hafa rekstrarútgjöld félagsins aðeins aukist um tæpar 300 milljónir á milli ára en 4 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins. Mestu munar í auknum launaútgjöldum og hærri viðhaldskostnaði.

Þá hafa tekjur af leigu flugvéla hækkað um 1 milljarð á milli ára fyrstu níu mánuði ársins.

Afskriftir tímabilsins, þ.e. þriðja ársfjórðungs, námu 1,6 milljarði króna, samanborið við 1,5 milljarð á sama tíma í fyrra. Þá nam heildarvelta félagsins á þriðja ársfjórðungi 31,1 milljarði og jókst um 8,9% á milli ára.

Handbært fé í lok ársfjórðungsins var 7,4 milljarðar króna, en var 1,9 í árslok 2009. Þá var eiginfjárhlutfall félagsins 18,6% í lok september 2010, en var 16,4% í lok ársins 2009

EBITDA hagnaður félagsins fyrstu níu mánuði ársins nemur því 11,5 milljörðum króna, samanborið við 8,4 milljarða á sama tíma í fyrra. Hagnaður eftir afskriftir nemur 7,2 milljörðum króna, samanborið við 4,4 milljarða í fyrra.

Hins vegar nemur hagnaður eftir skatta, afskriftir og fjármagnsliði 3,5 milljörðum króna, samanborið við tap upp á rúman 1,1 milljarð á sama tíma í fyrra.

Afskriftir félagins fyrstu níu mánuði ársins nemur nú 4,2 milljörðum króna, samanborið við 3,9 milljarða í fyrra. Fjármagnskostnaðurinn hefur þó lækkað lítillega eða um 100 milljónir og nemur 3 milljörðum fyrstu níu mánuði ársins.

Icelandair Group samstæðan stendur sem kunnugt er saman af Icelandair, Icelandair Cargo, Icelandair Ground Services, Bluebird Cargo, Flugfélagi Íslands, Iceland Travel, Icelandair Hotels, Loftleiðir Icelandic og fleiri fyrirtækjum.