Flugleiðir birtu í gær upplýsingar um flutninga hjá fjórum dótturfélögum sínum fyrir nóvember og fyrstu ellefu mánuði ársins. Mikil aukning er í umsvifum allra félaganna, frá 14,1% upp í 66,5% á fyrstu ellefu mánuðum ársins.

Frá því í maí á þessu ári hafa Flugleiðir ekki birt tölur um sætanýtingu, selda sætiskílómetra og framboðna sætiskílómetra. Á afkomufundi félagsins í tengslum við níu mánaða uppgjör félagsins kom fram að upplýsingagjöfin væri í skoðun og nú birtir félagið aftur þessar tölur, og er það vel segir í Hálffimm fréttum KB banka.. Sætanýting það sem af er ári hefur aukist um 5,5 prósentustig frá sama tíma í fyrra og er nú 74,9%.

"Framboðnir sætiskílómetrar hafa aukist um 12,7% frá fyrra ári og seldir sætiskílómetrar um 21,6%, sem skýrir bætta sætanýtingu. Vegna óhagstæðra ytri skilyrða á árinu, eins og hátt eldsneytisverð og sterkt gengi íslensku krónunnar, kemur aukning farþega og betri sætanýting ekki öll fram í auknum tekjum og bættri framlegð. Auk þess er samkeppni á flugmarkaði gríðarlega mikil og því hafa meðalfargjöld einnig lækkað nokkuð á tímabilinu. Þrátt fyrir þessi erfiðu ytri skilyrði hefur rekstur Flugleiða gengið vel á árinu og útlit fyrir að síðasti fjórðungur ársins verði félaginu ágætu," segir í Hálffimm fréttum KB banka.