Vefur Viðskiptablaðsins, vb.is, hefur fengið nýtt útlit og þjónusta við lesendur hefur um leið verið stórbætt. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, opnaði vefinn formlega í samkvæmi síðastliðinn föstudag.

Umsjónarmaður vb.is, Vilmundur Hansen blaðamaður, kynnti vefinn en fjöldi velunnara Viðskiptablaðsins var viðstaddur. Líkt og áður mun vefurinn birta fréttir úr viðskipta- og atvinnulífi, úr Kauphöllinni og nýjustu upplýsingar um stöðuna á markaði heima og erlendis. Upplýsingar um íslenska markaðinn eru aðgengilegar í samstarfi við M5 auk þess sem hægt verður að nálgast gengi gjaldmiðla og myntbreyti á vefnum.

Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið blaðið í heild á vefnum. Þeir fá einnig aðgang að fjölmiðlapistlum Ólafs Teits Guðnasonar, Óðni, Tý og Þrym. Viðburðadagatalið Á döfinni er á sínum stað og þar geta notendur vefsins skráð inn atburði og uppákomur sem tengjast viðskiptalífinu.