*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 11. desember 2019 12:08

Búa sig undir að fá ekki Max vélarnar

Boeing 737 Max vélar Icelandair gætu verið kyrrsettar fram yfir sumarið. Stjórnendur búa sig undir það versta.

Ritstjórn
Ein Boeing 737 Max8 véla Icelandair á flugi áður en kyrrsetningin tók gildi.
Haraldur Guðjónsson

Icelandair vinnur að áætlunum fyrir komandi sumar sem ekki gera ráð fyrir að Boeing 737 Max vélarnar komist í notkun fyrir sumarið að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í lok nóvember býst félagið enn við vélunum sem kyrrsettar voru snemma á síðasta ári í mars á næsta ári, en nú vinna stjórnendur félagsins að ólíkum sviðsmyndum um hvenær flugmálayfirvöld heimili notkun vélanna að nýju.

Mun töluvert vanta upp á að Icelandair hafi nægilega margar vélar til umráða yfir háannatíma næsta sumar ef verstu spár um tafir á því að vélarnar komist í notkun á ný gangi eftir.

Félagið hafði á sínum tíma fengið sex Max8 vélar með 153 sætum hver afhentar auk þriggja Max9 véla með 172 sæti, úr verksmiðju Boeing en áttu svo að fá þrjár Max9 og tvær Max 8 afhentar á komandi ári til viðbótar.

Leigusalar flugvéla eru sagðir tregir til að festa vélar sínar í leigu fram yfir sumarið nema fá fullvissu fyrir að af leigunni verði, sem gerir áætlanagerð fyrir sumarið vandasamar.