Innan Evrópusambandsins erú nú ræddar leiðir til að bregðast við mögulegu brotthvarfi Grikklands úr evrusamstarfinu. Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir heimildamanni í dag. Áhersla er þó lögð á að aðeins sé um að ræða vangaveltur um hvernig best megi bregðast við verstu mögulegu aðstæðum sem komið geti upp.

Meðal þess sem hefur verið rætt er að gjaldeyrishöft verði kynnt til sögunnar, að minnsta kosti í Grikklandi, ef ekki víðar. Einnig hefur komið fram að takmörk yrðu sett á þær fjárhæðir sem taka mætti út í hraðbönkum.

Þar sem ekki náðist að mynda meirihluta í kjölfar síðustu þingkosninga ganga Grikkir aftur til atkvæða þann sautjánda júní næstkomandi. Stjórnmálaflokkar þar í landi hafa ólík viðhorf til áframhaldandi evrusamstarfs og mun því skýrast í kjölfar kosninganna hvert framhald Grikkja innan Evrópusambandsins verður.