Rannsóknarmiðstöð í stjórnarháttum við Háskóla Íslands og NASDAQ OMX á Íslandi eru að búa til gagnagrunn yfir stjórnarmenn í stærstu fyrirtækjum landsins. Átakið hófst fimmtudaginn 24. janúar og sólarhring síðar höfðu hundrað fyrirtæki skráð stjórnir sínar inn í kerfið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá rannsóknarmiðstöðinni.

Tilgangurinn með átakinu er að bjóða stjórnum í framhaldinu að gera sjálfsmat á stjórnarháttum fyrirtækja. Endurmat á stjórnarháttum er eitthvað sem hefur vantað í fyrirtækjakúltúr okkar Íslendinga, segja Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX og Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í stjórnarháttum. „Við vildum þess vegna þess bjóða stjórnum fyrirtækja frítt sjálfsmat sem er fullkomlega samanburðarhæft við það sem best gerist erlendis."

Endurmat stjórna, þegar það er vel gert, getur verið áhrifaríkt tæki til þess að efla góða stjórnarhætti í fyrirtækjum. Til að leggja áherslu á nýjustu hugbúnaðartækni, sem tryggir öryggi gagna, var T1 Hugbúnaðarhús fengið til að útbúa grunninn fyrir gagnaöflunina.

„Þetta er næsta skref hjá okkur í Rannsóknarmiðstöð í stjórnarháttum til þess að hjálpa fyrirtækjum á Íslandi til að verða til fyrirmyndar í góðum stjórnarháttum" segir Eyþór. „Við höfum áður unnið með Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og NASDAQ OMX við að skapa umræðu um hlutverk stjórna og góða stjórnarhætti með framtakinu „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.""

Fjögur fyrirtæki: Stefnir, Mannvit, Icelandair Group og Íslandspóstur hafa farið í gegnum endurmatsferli á stjórnarháttum og fengið viðurkenningu sem „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum."

„Við erum að gera ráð fyrir að tuttugu til þrjátíu fyrirtæki munu fara í gegnum þetta ferli í ár en við vitum að margar stjórnir íslenskra fyrirtækja hafa rætt um mikilvægi góðra stjórnarhátta í kjölfar þessa átaks. Það skipti okkur mestu, að skapa þessa umræðu, vegna þess að stjórnir vita best sjálfar hvað þær þurfa að gera og hvernig þær eiga að vinna til þess að hafa tilgang fyrir fyrirtækið." segir Eyþór. „Þetta átak hefur líka leitt í ljós að það vantar tæki sem stjórnir geta notað til þess að gefa stjórnarmönnum kost á að gera sjálfsmat á stjórnarháttum. Þetta átak okkar núna er gert með það að leiðarljósi að leysa þetta vandamál."