Góðgerðasamtökin Bill & Melinda Gates Foundation hafa tilkynnt um áform sem gera Melindu kleift að segja sig úr stjórn samtakanna og fá „persónulega fjármuni“ frá Bill til þess að hefja eigin líknarstörf telji þau sig ekki geta unnið áfram.

Ákvæðið, sem tæki gildi eftir tvo ár, leit dagsins ljós á miðvikudaginn ásamt röð annarra breytinga á stjórnunarfyrirkomulagi samtakanna. Breytingarnar eiga að tryggja framtíð stærstu góðgerðasamtaka heims í þeirri óvissu sem nú ríkir við skilnað Bill og Melindu eftir 27 ára hjónaband, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Mark Suzman, forstjóri samtakanna, sagði að Melinda og Bill vildu vera hreinskilin um þau vandamál sem stafa af skilnaðinum en bætti þó við að hann hefði ekki trú að þau myndu slíta vinnusambandi sínu.

„Bill og Melinda hafa, bæði persónulega og sameiginlega, fullvissað mig um að þau væru staðráðin í að vinna saman sem stjórnarformenn (e. co-chairmen) til langs tíma,“ er haft eftir Suzman.

Bill og Melinda tilkynntu á sama tíma að þau myndu leggja fram 15 milljarða dala til viðbótar af eigin auðæfum til samtakanna. Einnig verður fengið inn utanaðkomandi aðila inn í stjórn samtakanna þar sem Warren Buffett, stærsti styrktaraðili samtakanna, hætti í stjórninni í síðasta mánuði .