*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 15. apríl 2018 14:23

Búa við tugprósenta verðbólgu

„Það er galið að hlúa að ungviðinu en reka það svo burt og leyfa einhverjum öðrum að njóta ávaxtanna af árangri þess,“ segir framkvæmdastjóri Nox Medical.

Snorri Páll Gunnarsson
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical.
Haraldur Guðjónsson

Nox Medical, sem þróar og framleiðir búnað til greiningar á svefni og svefntruflunum á alþjóðamarkaði, hefur vaxið ásmegin á undanförnum árum. Fyrirtækið seldi sína fyrstu vöru árið 2009 en í dag er veltir það um 2 milljörðum króna og hefur um 50 starfsmenn innan sinna vébanda. Þrátt fyrir hraðan vöxt leikur þó ekki allt í lyndi, að sögn framkvæmdastjóra Nox Medical. Fyrirtækið, sem er með tekjur í evrum, hafi líkt og önnur útflutningsfyrirtæki glímt við mikla styrkingu krónunnar og  gríðarlegar launahækkanir.

„Neytendur hafa búið við litla og stöðuga verðbólgu síðastliðin ár – jafnvel verðhjöðnun – en íslensk útflutningsfyrirtæki á alþjóðamörkuðum búa við tugpró­senta verðbólgu,“ segir Pétur. „Í okkar heimi er verðbólgan um 20%. Þessi rekstrarskilyrði og samkeppnisskilyrði hamla vextinum og gera það að verkum að mikil verðmæta- og atvinnusköpun, sem annars gæti átt sér stað, fer forgörðum á ári hverju.“

Pétur segir það þó pólitískt val hvort að hugvit og hátækni verði fjórða útflutningsstoð Íslands.

„Stjórnvöld verða að líta á endurgreiðslur sem fjárfestingu en ekki útgjöld og taka upp skattaafslætti og aðra hvata til laða hingað hugvit og halda þeim sem fyrir eru. Það er galið að hlúa að ungviðinu en reka það svo burt og leyfa einhverjum öðrum að njóta ávaxtanna af árangri þess, eins og gerðist með Flögu. Fyrirheit stjórnvalda um að afnema endurgreiðsluþakið er stórkostleg framför og virðist undirstrika skilning stjórnvalda á því að þessi stoð er mikilvæg í hagkerfi okkar,“ segir Pétur.

„Við höfum náð ótrúlegum árangri þrátt fyrir ágjöf. Það má kannski líkja okkur við langhlauparann sem þarf að hlaupa upp brekku. Við erum að hlaupa hraðar en hinir, en værum við í sama umhverfi og samkeppnisaðilar á jafnsléttu værum við með enn meira forskot og værum að stækka mun hraðar en við höfum gert.“

Fjórðungur fer í R&Þ

Alls leggur Nox Medical fjórð­ung af árlegum rekstrartekjum í rannsóknir og þróun. Á síðasta ári nam sú fjárfesting í kringum 500 milljónum króna. Fyrirtækið á í rannsóknarsamstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, sem og stærstu og virtustu vísindastofnanir heims, líkt og Harvard University, Stanford University, Johns Hopkins og University of Pennsylvania. Þá var Nox Medical eina fyrirtækið af um tvö þúsund umsækjendum sem hlaut 300 milljóna króna rannsóknarstyrk frá Horizon 2020 tæknisjóði Evrópusambandsins fyrir rúmlega ári síðan.

„Allt okkar rannsóknar- og þró­unarstarf gengur út á það að þróa og innleiða nýja tækni og nýjar aðferðir sem gera okkur kleift að greina gögn yfir svefn, öndun, heilarit og önnur lífeðlisfræðileg merki í hærri upplausn en áður. Þar horfum við meðal annars til gervigreindar, tauganets, sjálfvirknivæðingar, róbotatækni og fleira,“ segir Pétur. 

„Fjórða iðnbyltingin er ekki bara tískuorð, heldur stað­reynd. Ef við tökum ekki þátt í henni þá drögumst við aftur úr. Ég er á þeirri skoðun að við á Íslandi getum verið í leiðtogahlutverki þar við að tileinka okkur nýjungar á sviði heilbrigðisvísinda.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.