Greint var frá opnun tilboða Landsvirkjunar í raf- og vélbúnað Búðarhálsvirkjunar í gær. Reyndust öll tilboðin nema eitt vera undir kostnaðaráætlun Landsvirkjunar.

Þar kom fram að þýska fyrirtækið Voith Hydro GmbH átti lægsta tilboðið upp á 49.116.008 dollara. Þá var einnig boðið í hluta verks sem var íslenskum krónum upp á 747.337.315 kr. Samtals hljóði tilboð Voith Hydro því upp á 6.269.941.255 krónur eða 85,1% af kostnaðaráætlun.

Misskilnings gætti í frétt á vb.is í gær þar sem íslenski hlutinn var ekki tekinn með í dæmið og er beðist velvirðingar á því. Næst lægsta tilboðið í verkefnið var frávikstilboð frá Koncar-Litostroj Power og var samanlagt upp á 6.436.150.785 krónur eða 87,4% af kostnaðaráætlun. Aðaltilboð Koncar-Litostroj Power nam 89,8% af kostnaðaráætlun og var upp á 6.615.660.571 krónur.  Þá kom frávikstilboð Andritz Hydro GmbH upp á 6.761.106.447 krónur eða 91,8% af áætlun. Þar var ekki um að ræða boð í íslenska þátt verksins né í aðaltilboð sama fyrirtækis sem hljóðaði upp á 7.127.967.051 krónur eða 96,8% af kostnaðaráætlun. Hæsta tilboðið átti svo IMPSA en samanlagt tilboð þess fyrirtækis nam 10.202.579.105 krónum eða 138,5% af kostnaðaráætlun.