Árleg rýrnun í verslunum hér á landi vegna þjófnaða og mistaka er um 2,8 milljarðar króna ef miðað er við meðaltalstölur frá 24 Evrópulöndum. Þannig þarf hver landsmaður að greiða að jafnaði um 9.000 krónur á ári vegna þjófnaða og mistaka að því er kemur fram í frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

Stærsti hluti þessarar upphæðar má ætla að sé vegna þjófnaða, eða um 2,4 milljarðar, annað er vegna mistaka í versluninni.

Þar er bent á að þessi tegund rýrnunar í verslunum er að meðaltali 1,24% af veltu evrópskra smásöluverslana, samkvæmt niðurstöðum European Theft Barometer, sem gerir slíkar kannanir á hverju ári. Íslenskar verslanir voru ekki með í könnuninni að þessu sinni en í fyrra, þegar íslenskar verslanir tóku þátt, var Ísland rétt undir meðaltalinu.

Samkvæmt rannsókninni hefur dregið lítillega úr búðaþjófnuðum milli ára, eða úr 1,25% í fyrra og í 1,24% að meðaltali núna. Ekki er mikill munur á milli landa, því í Eystarasaltslöndunum og Pólandi er þessi tegund rýrnunar um 1,35%, í Bretlandi 1,33% og í Svíþjóð 1,32%.

Stærstur hluti rýrnunar er talinn vera vegna þjófnaða viðskiptavina eða 48,8%, næst stærstur hluti er talinn vera vegna þjófnaðar starfsmanna 30,7%, ýmis mistök í fyrirtækjunum valda 14,3% rýrnunarinnar og 6,2% eru vegna mistaka birgja. Ef þessar tölur eru heimfærðar upp á verslun hér á landi stela viðskiptavinir árlega fyrir 1,4 milljarða kr. og starfsmenn fyrir 553 millj. kr.

Í frétt RV kemur fram að þjófnaður meðal starfsmanna er áhyggjuefni meðal stjórnenda í verslana í Bretland, Danmörku, Noregi og Finnlandi. Í fyrra, þegar íslenskar verslanir tóku þátt í könnuninni, var mun hærra hlutfall starfsmannaþjófnaða hér en í nokkru öðru hinna 24 landanna sem könnunin náði til.

Meðal þeirra vara sem mest er stolið af eru snyrtivörur, tískufatnaður, fyrirferðalítil rafeindatæki eins og MP3 spilurum og DVD diskum.

Verslanir verja stöðugt meiri fjármunum til eftirlits og þjófavarnarbúnaðar og nýjum aðferðum er beitt. Nú er í auknum mæli farið að setja svokallaðar RFID flögur í umbúðir vöru, en það eru rafeindaflögur sem hægt er að lesa og fylgjast með á þráðlausum skönnum.