Icelandair býst ekki við að Boeing 737 Max flugvélar félagsins taki aftur á loft fyrr en í mars. Í tilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér nú fyrir skömmu kemur fram að vélarnar verði ekki í leiðakerfi þess í janúar og febrúar. Icelandair hafði áður gert ráð fyrir að hefja notkun þeirra á ný um áramótin.

Þá segist Icelandair áfram eiga í viðræðum við Boeing um bætur vegna kyrrsetningarinnar. Félögin náðu bráðabirgðasamkomulagi um bætur þann 20. september. Boeing gaf út í gær að hann byggist við að grænt ljós fengist á notkun vélanna á þessu ári.