*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 17. desember 2019 09:10

Búast ekki við Max vélum fyrr en í maí

Icelandair hyggst leigja tvær Boeing 737-800 NG vélar frá næsta vori ásamt því að halda áfram rekstri 757 véla.

Ritstjórn
Ein Boeing 737 Max8 véla Icelandair á flugi áður en kyrrsetningin tók gildi.
Haraldur Guðjónsson

Icelandair hefur uppfært leiðaráætlun sína þar sem félagið gerir ekki ráð fyrir að fá Max vélarnar fyrr en í maí. Hefur félagið þess í stað leigt tvær 737-800 NG vélar frá næstkomandi vori og vinnur jafnframt að því að leigja þriðju vélina. Jafnframt mun félagið halda áfram rekstri fleiri 757 véla á næsta ári heldur en félagið hafði ætlað sér.

Fyrri áætlanir Icelandair gerðu ráð fyrir að Max vélarnar gætu verið komnar í notkun í mars, ári eftir kyrrsetningu þeirra, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur Boeing nú hætt tímabundið framleiðslu vélanna, 9 mánuðum eftir að tvö alvarleg flugslys leiddu til þess að vélarnar voru kyrrsettar.

Icelandair segir jafnframt að félagið hafi náð bráðabirgðasamkomulagi við Boeing um bætur og enn haldi frekari viðræður um bætur áfram. Félagið mun halda áfram að fylgjast með þróun mála hjá flugmálayfirvöldum svo Max vélarnar komist í notkun á ný.

Stikkorð: Boeing Icelandair Max 737