Greiningardeild Arion banka býst ekki við því að Seðlabankinn muni hækka vexti á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Í markaðspunktum greiningardeildarinnar segir, „Með aðgerðum sínum núna í vor hefur því Seðlabankinn eflaust fært sig á „rétt stig“ miðað við það aðhald sem þeir myndu helst kjósa, en komið hefur fram að nefndin telji að bankinn sé „á eftir kúrfunni“ í vaxtahækkunum. Við búum hins vegar við að vaxtahækkunarferlið haldi áfram í haust, nánar tiltekið 0,25% hækkun þótt ekki sé hægt að útiloka 0,5% hækkun.“

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 25 punkta nú í morgun (0,25 prósentur). Seðlabankinn hefur þá hækkað vexti um 100 punkta það sem af er ári. Greiningardeildin segir hækkunina í takt við væntingar en segir þó að nú kveði við nýjan og mýkri tón í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Með því vísa þau til þess að Seðlabankinn horfi til atburða í Evrópu og vísa til þessarar málsgreinar í yfirlýsingu peningastefnunefndar:

"Óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum hefur aukist að undanförnu, ekki síst vegna fjármálakreppunnar í Evrópu. Þessar aðstæður valda frekari óvissu um innlendar efnahags- og verðbólguhorfur. Peningastefnan gæti því á næstunni þurft að bregðast við atburðum sem hefðu umtalsverð áhrif á hagvöxt og verðbólgu hér á landi. Eins og endranær mun peningastefnunefndin þá miða að því að ná verðbólgumarkmiði til lengdar á sama tíma og reynt yrði að draga úr innlendum efnahagssveiflum.

Greiningardeildin segir erfitt að átta sig nákvæmlega á merkingu síðustu setningarinnar en bætir við; „Hingað til hefur bankinn skellt skollaeyrum við ástandinu allt í kringum sig og einkum beint sjónum sínum að innlendum verðbólguhorfum. Hins vegar má túlka setninguna þannig að Seðlabankinn sjái fyrir sér að til skamms tíma gæti hann litið fram hjá hárri verðbólgu (og um leið tímabundnum slaka í peningastefnunni) ef efnahagsbatinn gefur eftir vegna slaka í heimsbúskapnum.“